6 C
Selfoss
Home Fréttir Lægri fasteignagjöld – fríar skólamáltíðir – betri Árborg!

Lægri fasteignagjöld – fríar skólamáltíðir – betri Árborg!

0
Lægri fasteignagjöld – fríar skólamáltíðir – betri Árborg!
Guðrún Jóhannsdóttir.

Við hjónin fluttumst í Sveitarfélagið Árborg fyrir tæpum þremur árum frá Dalabyggð þar sem við rákum saman búskap. Ég var kaupfélagsstjóri á Borðeyri áður en ég settist að í Dalabyggð en í því sveitarfélagi átti ég sæti í sveitarstjórn og byggðaráði árin 2010–2014. Ég lauk námi í viðskiptafræði á sviði stjórnunar frá Háskólanum á Akureyri árið 2007. Fyrir þann tíma starfaði ég um tuttugu ára skeið í Búnaðarbanka Íslands. Í dag starfa ég sem aðstoðarverslunarstjóri í Hagkaup á Selfossi.

Sem sveitarstjórnarfulltrúi fyrir Dalabyggð sótti ég fjármálaráðstefnur sveitarfélaga sem ég tel afar mikilvægt fyrir sveitarstjórnarmenn að gera. Á ráðstefnunum komu fram ýmsar gagnlegar upplýsingar um samskipti ríkis og sveitarfélaga, þar var einnig farið yfir ýmis mál sem tengjast skyldum og hlutverkum sveitarfélaganna í landinu sem svo nýttust mér vel í störfum mínum fyrir Dalabyggð.

Við ætlum að lækka fasteignagjöldin
M-listinn hefur lagt mikla vinnu undanfarið í að greina fjármál Sveitarfélagsins Árborgar. Rekstur þess hefur gengið ágætlega undanfarin ár meðal annars vegna þess að gjöldin sem sveitarfélagið hefur lagt á íbúa sína eru með þeim allra hæstu á landinu. Fasteignagjöldin hafa sem dæmi hækkað mjög ört frá árinu 2014. Samkvæmt könnun verðlagseftirlits ASÍ þá eru fasteignagjöld fyrir sérbýli og fjölbýli á Selfossi 50–70% hærri en á Akranesi og í Mosfellsbæ svo mismunurinn hleypur á hundruðum þúsunda. Árborg skilaði á síðasta ári rekstrarafgangi upp á tæpar 500 milljónir. Íbúarnir eiga að fá að njóta þess ávinnings. Við ætlum að lækka fasteignagjöldin!

Við ætlum að gera grunnskólanna gjaldfrjálsa
M-listinn ætlar á komandi kjörtímabili að greiða fyrir námsgögn og bjóða upp á fríar skólamáltíðir fyrir grunnskólabörn í Árborg. Í dag rukkar Árborg hvert grunnskólabarn um 443 krónur fyrir skólamáltíð auk morgunhressingar og auka 37 krónur fyrir mjólkurglasið. Útgjaldaaukinn fyrir Árborg er um 100 milljónir króna árlega. Þeim kostnaði er hægt að mæta með sparnaði í yfirstjórninni. Það má t.d. lækka laun bæjarstjóra, fastráða bæjarlögfræðing til að sinna stjórnsýslunni og minnka kaup á aðkeyptri sérfræðiþjónustu sem hægt er að vinna innan veggja ráðhússins, í stað þess að kaupa hana á 25.000 krónur á tímann út í bæ.

Merkjum x við M á kjördag fyrir betri Árborg!

 

Guðrún Jóhannsdóttir, skipar 2. sæti á M-lista Miðflokksins í Árborg.