4.7 C
Selfoss

Reiðhjólahjálmar afhentir öllum 7 ára börnum á Íslandi

Vinsælast

Um þessar mundir er að ljúka afhendingu reiðhjólahjálma til allra 7 ára barna á Íslandi. Þessi mikilvægi öryggisbúnaður er gjöf frá Eimskipafélagi Íslands og Kiwanishreyfingunni á Íslandi.

Ætlast er til að barnið noti hjálminn alltaf þegar barnið hjólar, leikur sér á línuskautum, hlaupahjóli eða hjólabretti. Hjálminn má alls ekki nota í klifri eða þar sem hætta er á hengingu eða að höfuðið festist. Leiðbeiningar fylgja hjálminum og skulu foreldrar lesa þær áður en hjálmurinn er notaður.

Kiwanisklúbbarnir á Íslandi hafa í áratugi útvegað og séð um dreifingu reiðhjólahjálma til 7 ára barna. Kaldbakur á Akureyri hóf þetta forvarnarstarf 1991, en félagar í Búrfelli á Selfossi hafa annast þetta síðan 1997 á sínu félagssvæði í 22 ár. Fyrstu árin fjármagnaði klúbburinn verkefnið en frá 2004 hefur Eimskip kostað verkefnið, bæði innkaup og flutninga.

Það er skemmtileg samsvörun hjá Eimskip. Í upphafi var Eimskipafélag Íslands „óskabarn þjóðarinnar“ en nú hefur Eimskip í samvinnu við Kiwanishreyfinguna gert þetta verkefni að óskabarni sínu. Öll 7 ára börnin eru „óskabönin okkar“ sem fá að gjöf þennan öryggisbúnað.

Í Morgunblaðinu í fyrra birtist í vísuhorninu gáta eftir Guðmund Arnfinnsson, gátusnilling, sem gaman er að láta fylgja með í þessari grein.

Á höfði menn bera til hlífðar sér
Hangir í loftinu hjá mér.
Blettur í hestsins auga er.
Alþekktur klerkur nafnið ber

Hjörtur Þórarinsson félagi í Kiwanisklúbbnum Búrfelli á Selfossi.

 

Nýjar fréttir