0.3 C
Selfoss

Bjartir tímar í Bláskógabyggð

Vinsælast

Bláskógabyggð hefur að geyma einar fallegustu náttúruperlur landsins og streymir fólk frá öllum heimshornum í gegnum sveitarfélagið til að skoða fallega bakgarðinn okkar. Að kvarta yfir ferðamanninum og ágangi hans er eins og að kvarta yfir fiskilykt í sjávarþorpi. Þetta eru okkar fiskimið og eins og í sjávarútveginum, fiska þeir sem róa. Það er mín skoðun að greiða þurfi götu þeirra sem starfa vilja í ferðaþjónustu og hlúa vel að öllu sem að henni snýr. Upplýsa þarf ferðamanninn um hvernig hann á að haga sér í salernis- og gistingarmálum og stýra honum í gegnum gullna hringinn með það að leiðarljósi að selja honum sem mesta þjónustu, hvort sem er í formi gistingar, veitinga eða hvers kyns afþreygingar. Þeir aurar sem hann skilur eftir í sveitarfélaginu skila sér út í samfélagið og létta okkur allan róður.

Með aukinni ferðaþjónustu fjölgar störfum á svæðinu. Hér er næga atvinnu að hafa og bjartir tímar framundan. Framboð af góðum íbúðarlóðum er hinsvegar orðið takmarkað í sveitarfélaginu og þarf að bregðast við því með skjótum hætti. Ég verð var við það í mínu umhverfi að ungt fólk vill byggja hús yfir sig og fjölskyldur sínar en hverfur frá vegna lakra kosta í lóðamálum. Það má ekki gerast að við missum ungt fólk úr sveitinni af þeim sökum.

Það er frábært að búa í þessu fallega umhverfi. Hér er iðandi mannlíf, heilmörg atvinnutækifæri og öflugt skólakerfi fyrir börnin okkar. Eins og áður sagði eru bjartir tímar framundan, þeim fylgja ótal tækifæri og er ég tilbúinn að leggja mitt af mörkum til að nýta þau og gera okkar góða samfélag enn betra.

Random Image

Nýjar fréttir