1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Forsendur fyrir góðri fjármálastjórn er vönduð fjárhagsáætlunargerð

Forsendur fyrir góðri fjármálastjórn er vönduð fjárhagsáætlunargerð

0
Forsendur fyrir góðri fjármálastjórn er vönduð fjárhagsáætlunargerð
Tómas Ellert Tómasson.

Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga sem innihalda m.a. fjárfestingaáætlanir og þ.m.t. verkáætlanir, eru mikilvægasta stjórntækið við að sameina almenna starfsemi sveitarfélaga og fjármál þeirra. Bæjarstjórn afgreiðir í desember ár hvert fjárhagsáætlun fyrir komandi ár og næstu þrjú ár þar á eftir. Afgreiðsla fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár er bindandi ákvörðun um fjárheimildir sveitarfélagsins. Fjárhagsáætlun fyrir næstu þrjú ár þar á eftir birtir stefnumörkun bæjarstjórnar um þróun sveitarfélagsins á þeim árum.

Saman mynda þessar áætlanir fjögurra ára áætlun fyrir sveitarfélagið sem felur í sér heildaráætlun um fjármál sveitarfélagsins á tímabilinu, bæði A og B-hluta. Mikilvægt er að undirbúningur fjárhagsáætlunar sé vel unninn og skipulega, forsendur séu greindar af raunsæi og að almenn þekking og skilningur ríki meðal bæjarstjórnar á þeim aðstæðum sem sveitarfélagið býr við hverju sinni.

Vandaðar verkáætlanir
Vönduð verkáætlun hefur sem grunnforsendu þann tíma sem tekur að framkvæma hvern verkþátt og þá röð sem vinna má verkþættina. Röð verkþáttanna ákvarðast af því hvað þarf að vera búið að framkvæma, áður en sá verkþáttur getur hafist sem er til umfjöllunar hverju sinni. Suma verkþætti má vinna í samfellu og klára þá eftir að byrjað er á þeim, en flesta verkþætti þarf að vinna í fleiri áföngum og þarf þá að líta til þess hverju þarf að vera lokið til að hver áfangi geti hafist. Á þennan einfalda og rökrétta hátt eru vandaðar verkáætlanir settar upp allt til enda framkvæmda.

Óvandaðar verkáætlanir
Óvandaðri verkáætlun er best lýst með eftirfarandi dæmi: Bæjarstjórn Árborgar hyggst koma upp nýju hverfi í Björkurstykki hvar íbúabyggð og ný grunnskólabygging á að rísa. Bæjarstjórnin vinnur að og leggur síðan fram fjárfestingaáætlun á bæjarstjórnarfundi í desember 2017. Fjárfestingaáætlunin sem inniheldur verkáætlun er samþykkt samhljóða af öllum bæjarfulltrúum meiri- og minnihluta. Fjárfestingaáætlunin er sett upp þannig að fyrsta áfanga skólabyggingarinnar á að taka í notkun árið 2020 en götur, vatns-, hita- og fráveitur á að leggja í hverfið árið 2021.

Það sér hvert mannsbarn að slík verkáætlun gengur ekki upp. Skynsamlegra er að veitukerfin vinnist samhliða gatnagerðinni, séu til staðar á byggingartíma og séu tengd við veitukerfi skólabyggingarinnar fyrir vígslu hins nýja grunnskóla svo a.m.k. nemendur og starfsfólk hafi afdrep er málskyldan kallar.

M-listi Miðflokksins í Árborg ætlar að vanda til fjárhagsáætlanagerða og láta vinna verkþætti í fyrirhuguðum framkvæmdum í réttri röð. Það tryggir meðal annars börnum í Árborg góða líðan og gott skólaumhverfi.

Tómas Ellert Tómasson, oddviti M-lista Miðflokksins í Árborg