6.1 C
Selfoss

Fundur í Aratungu um snjalltæki og unga fólkið okkar

Vinsælast

Sameiginlegur fundur foreldrafélaganna í Kerhólsskóla, Bláskógaskóla Laugarvatni, Bláskógaskóla Reykholti, Flúðaskóla, Flóaskóla, Menntaskólanum á Laugarvatni og leikskólanna á svæðinu verður haldinn í Aratungu í Reykholti 12. apríl nk. kl. 20.

Fundurinn markar upphaf samstarfs félaganna sem verður vonandi til þess að efla þau öll og foreldrana sem að þeim standa.

Ákveðið var af undirbúningshópi að halda fyrsta sameiginlega fundinn um snjalltæki og notkun þeirra. Þetta málefni hefur brunnið á foreldrum í nokkurn tíma og helst í hendur við stóraukna notkun þessara tækja. Margir foreldrar eru áhyggjufullir og hafa orðið varir við þær neikvæðu hliðar sem þessum tækjum fylgja. Á sama tíma er ljóst að þau eru komin til að vera og því þarf að huga að því hvernig við umgöngumst tækin, hvaða reglur eiga að gilda og hvernig nálgumst við þau á skynsamlegan hátt. Til að hjálpa foreldrum að átta sig betur á þessum málum blása því félögin til fundar.

Samráðshópurinn hefur gefið þessu samstarfi nafnið „Foreldrasveitin“ og vísar þannig til þess umhverfis sem við búum í en einnig til þess að með því að fylkja liði þá er hægt að gera fullt af jákvæðum breytingum í krafti samstöðu og fjölda.

Á fundinn munum mæta sérfræðingar á þessu sviði og segja foreldrum frá því hvaða áhrif tækin geta haft og hvernig við getum brugðist við til að ná sem bestum árangri og forðast neikvæð áhrif. Allir foreldrar eru í sömu sporum hvað varðar þessi tæki þar sem þau eru ný og eru að sækja í sig veðrið. Fyrirlesararnir munu því reyna að svara spurningum eins og; Hvaða áhrifa hafa þessi tæki í raun og veru? Hvað þarf að varast? og Hvernig eigum við að nálgast þau á jákvæðan hátt?

Fyrirlesarar á fundinum eru Björn Hjálmarsson, læknir á BUGL, Arna Skúladóttir, hjúkrunarfræðingur og svefnráðgjafi, Jana Lind Ellertsdóttir, fulltrúi í Ungmennaráði, og Heiða Ösp Kristjánsdóttir, félagsráðgjafi hjá Árborg. Þau flytja erindi sem snúa að tækjunum, notkun þeirra, umgengni og upplifun.

Undirbúningshópurinn vonast til að sjá sem flesta á fundinum þann 12. apríl í Aratungu Reykholti. Fundurinn er opin öllum hvort sem þeir eru á svæðinu eða í nærsveitum. Foreldrar eru sérstaklega hvattir til að koma og taka unglingana sína með sér. Allir ættu að geta nýtt sér þær upplýsingar sem að fram koma.

Nýjar fréttir