-2.2 C
Selfoss

Flottir grillaðir hamborgarar og sérbruggaðir bjórar

Vinsælast

Miðvikudaginn 11. apríl sl. opnaði Smiðjan Brugghús veitingastað sinn að Sunnubraut 15 í Vík í Mýrdal, en það húsnæði hýsti áður gömlu kaupfélagssmiðjurnar í þorpinu. Að sögn Sveins Sigurðssonar, eins rekstraraðila veitingastaðarins, verður aðláherslan til að byrja með lögð á flotta grillaðaða hamborgarar og sérbruggaða bjóra. „Við ætlum okkur að vera með lítinn matseðil en ætlum svo að vera með 10 bjóra á dælum. Á staðnum eru sæti fyrir 55 manns og geta þeir séð inn í brugghúsið og fylgst með starfseminni þar,“ segir Sveinn.

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga hjá fólki á Suðurlandi og hafa margir sýnt áhuga á því að selja bjóra frá okkur. Við viljum geta boðið viðskiptavinum okkar fjölbreytt úrval af bjór og einnig ætlum við að bjóða upp á brugghúsheimsóknir til þess að kynna bæði vöruna okkar og einnig handverksbjóramenninguna á Íslandi sem hefur verið að byggjast hratt upp síðustu árin.“

Fjórir einstaklingar koma að rekstrinum en það eru Sveinn Sigurðsson, Vigfús Þór Hróbjartsson, Vigfús Páll Auðbertsson og Þórey Richardt Úlfarsdóttir. Sveinn og Þórey munu sjá um daglegan rekstur.

„Hugmyndin að Smiðjunni Brugghús kom upp þegar Vigfús Þór hafði fengið bjórbók í jólagjöf árið 2014 og sendi mér skilaboð á jóladag um hvort við ættum ekki að stofna brugghús í Vík. Ég og Þórey höfðum einmitt verið að stefna að því að stofna okkar eigið brugghús í talsverðan tíma og var ég að vinna að verkefni í mastersnámi mínu í Brand management and marketing communication við SDU í Odense í Danmörku, sem var viðskiptaáætlun fyrir brugghús á Fjóni. Ég sagði honum í gríni að ég myndi bara þýða það yfir á íslensku þegar ég væri búinn með það og senda honum. Tveim dögum síðar sendi Vigfús okkur teikningu af brugghúsi sem hann var búinn í teikna upp í húsnæði í Vík og við áttuðum okkur á því að hann væri ekki að grínast. Seinna kom í ljós að Vigfús Páll var með svipaða drauma og þá byrjaði boltinn að rúlla,“ segir Sveinn.

Sveinn segir að þau hafi verið dugleg að leyfa fólki að fylgjast með öllu sem hefur verið í gangi hjá þeim, öllu aukaveseninu sem hefur verið í gangi. Hægt er að fylgjast með á Snapchat: smidjanbrugghus, www.facebook.com/smidjanbrugghus og www.instagram.com/smidjanbrugghus.

Nýjar fréttir