Bæjarráð Árborgar ályktaði um tvöföldun Suðurlandsvegar

Bæjarráð Árborgar ræddi á fundi sínum 5. apríl sl. um tvöföldun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss og nýja brú á Ölfusá. Eftirfarandi ályktun var samþykkt:

„Bæjarráð Árborgar ítrekar tilmæli sín til fjármála- og samgönguráðuneytisins þess efnis að Vegagerðinni verði tryggðir fjármunir til að ráðast í framkvæmdir við tvöföldun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss og gerð nýrrar brúar á Ölfusá. Unnið hefur verið að hönnun vegarins og brúarinnar um nokkurt skeið og samningaviðræður Vegagerðarinnar við landeigendur, þar sem kaupa þarf upp land, eru langt komnar. Nauðsynlegt er að tryggja áframhald verkefnisins, enda eykst stöðugt umferðarálag á umræddum vegarkafla. Um er að ræða einn fjölfarnasta hluta þjóðvegakerfisins og er afar brýnt að bæta umferðaröryggi á kaflanum og auka afkastagetu með nýrri brú á Ölfusá. Öll sú umferð sem hlýst af auknum ferðamannastraumi um Suðurland og til Austurlands fer í gegnum Selfoss og um Ölfusárbrú, auk þeirrar umferðar sem fer um Landeyjahöfn að sumarlagi. Minna má á að ítrekað hafa komið fram loforð fyrri ríkisstjórna um breikkun vegarins og nýja brú. Bæjarráð Árborgar gerir þá kröfu að brugðist verði við með fjármagni til verkefnisins nú þegar.“