1.1 C
Selfoss

Sveitarfélagið Ölfus rekið með hagnaði

Vinsælast

Ársreikningur Sveitarfélagsins Ölfuss fyrir árið 2017 var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Ölfuss þann 22. mars sl. Samkvæmt reikningnum gekk rekstur sveitarfélagsins vel á árinu og var sveitarfélagið og A- og B-hluti rekið með tæplega 152 miljóna króna hagnaði þrátt fyrir gjaldfærslu í rekstri sveitarfélagsins upp á tæpar 67 mkr. vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð á árinu, vegna lífeyrisskuldbindinga starfsmanna.

Rekstrartekjur A- og B-hluta námu alls um 2.745 mkr. á árinu 2017. Þar af voru rekstrartekjur A-hluta um 2.470 mkr. og B-hluta um 275 mkr. Rekstrargjöld A- og B-hluta urðu alls 2.594 mkr. Þar af voru rekstrargjöld A-hluta 2.344 mkr. og B-hluta um 250 mkr. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta varð því jákvæð um tæpar 152 milljónir króna þar af var rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 126 mkr. sem er um 17 mkr. betri niðurstaða en á árinu 2016 þrátt fyrir þessa miklu gjaldfærslu vegna Brúar lífeyrissjóðs. Rekstrarniðurstaða B-hluta var jákvæð um 26 mkr. en á árinu 2016 var hún jákvæð um rúmar 48 mkr. Engin ný langtímalán voru tekin á árinu 2017.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir samstæðunnar um 4.477 mkr. Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir 464 mkr. Þar af í hafnarmannvirkjum fyrir 213 mkr. og fasteignum fyrir 194 mkr. Önnur fjárfesting nam 57 mkr. Langtímaskuldir samstæðunnar í árslok voru 1.258 mkr. og lækka um 31 mkr. milli ára. Lífeyrisskuldbindingar í árslok voru 428 mkr. og hækka um 12 mkr. milli ára. Langtímaskuldir og skuldbindingar í árslok voru því alls um 1.686 mkr.

Fram kemur að rekstur sveitarfélagsins var með svipuðum hætti og verið hefur en þjónusta þó aukin á ýmsum sviðum sem hefur í för með sér aukinn rekstrarkostnað. Íbúum sveitarfélagsins fjölgaði töluvert á árinu og voru þeir þann 1. desember 2017 2.106 en voru 2.014 þann 1. desember 2016 og fjölgaði því um 92 á árinu.

Ársreikningurinn verður tekinn til síðari umræðu á fundi bæjarstjórnar þann 26. apríl nk.

Nýjar fréttir