6.1 C
Selfoss
Home Fréttir Hjálpartæki auðvelda athafnir daglegs lífs

Hjálpartæki auðvelda athafnir daglegs lífs

0
Hjálpartæki auðvelda athafnir daglegs lífs
Guðný Bogadóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Vestmannaeyjum

Samkvæmt skilgreiningu Sjúkratrygginga Íslands eru hjálpartæki tæki sem ætlað er að draga úr fötlun, aðstoða fatlaða og aldraða við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Hjálpartækið verður jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Til að eiga rétt á hjálpartæki þarf einstaklingur að vera sjúkratryggður og þarf að hafa not fyrir tækið í meira en 3 mánuði. Í sumum tilvikum greiða Sjúkratryggingar tækið að fullu en í öðrum tilfellum ber notandi hluta af kostnaði.

Hjálpartæki eru mjög fjölbreytt og eru af ýmsum stærðum og gerðum og nýtast við ólík tilefni. Sem dæmi má nefna tæki sem aðstoða við hreyfingu s.s. hjólastóla, rafskutlur, göngugrindur og stafi. Tæki við athafnir daglegs lífs eins og eldhúsáhöld, sokkaífærur, rennilásahjálpartæki, hnappakrókar og ýmis stoðtæki og stuðningstæki. Þá eru ótalin hjálpartæki sem ætluð eru fyrir ákveðna sjúklingahópa eins og sykursýkislyf og stómavörur.

Hvernig er sótt um hjálpartæki

Ef þú telur að hjálpartæki gæti nýst þér eða þínum er hægt að leita frekari upplýsinga á næstu heilsugæslustöð. Heilbrigðisstarfsmenn sjá um að fylla út umsókn sem send er á sérstöku eyðublaði til Sjúkratrygginga Íslands og sjá heilbrigðisstarfsmenn um að fylla út umsókn. Í tilviki fyrstu umsóknar um meðferðarhjálpartæki (þ.m.t. stoðtæki í meðferðarskyni) skal umsögn læknis ætíð fylgja. Oft sjá sjúkra- og/eða iðjuþjálfar um að aðstoða við val á hjálpartækjum.

Sé umsókn samþykkt annast Sjúkratryggingar afgreiðslu á hjálpartækjum í samræmi við reglur og sér un endurnýtingu tækjanna.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Guðný Bogadóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Vestmannaeyjum