Knattspyrnudeild Selfoss hefur gert eins árs samning við markvörðinn Emmu Higgins, sem kemur til félagsins frá Grindavík.
Emma er reyndur markvörður en hún er einnig markvörður Norður-Írska landsliðsins. Hún gekk í raðir Grindavíkur árið 2010 og hefur leikið þar stærstan hluta ferilsins en einnig með KR í Pepsi-deildinni árið 2012 og Doncaster Rovers Belles í Englandi árið 2013. Hún sneri svo aftur til Grindavíkur sumarið 2014.
„Emma býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á sinni stöðu og smellur vel inn í hópinn hjá okkur. Hún kom með okkur í æfingaferð til Spánar fyrir páska og sýndi þar hvað í henni býr auk þess sem hún hefur spilað með okkur í Lengjubikarnum og staðið sig vel. Það er ótrúlega gott fyrir okkur að fá leikmann eins og hana inn í hópinn okkar. Hún er frábær karakter og smitar út frá sér til yngri leikmanna bæði í leikjum og á æfingum. Það er það sem við þurfum fyrir okkar unga og efnilega lið,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.