4.5 C
Selfoss

Þingmenn ættu að hlusta betur á ungt fólk

Vinsælast

Ungmennaráð Ungmennafélags Íslands stendur fyrir ráðstefnu fyrir ungt fólk í næstu viku. Um 100 ungmenni á aldrinum 16–25 ára mæta á ráðstefnuna. Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði hefur fest sig í sessi sem einn af mikilvægustu viðburðunum fyrir ungt fólk á Íslandi.

„Það koma yfirleitt fáir þingmenn á ráðstefnur sem ungt fólk stýrir. Þeir eru oft uppteknir við annað. En ég held að þeir geti lært mjög mikið af því að mæta á ungmennaráðstefnu eins og Ungt fólk og lýðræði,“ segir Kolbrún Lára Kjartansdóttir, formaður Ungmennaráðs UMFÍ. Hún og ungmennaráðið eru á fullu þessa dagana að skipuleggja ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði. Ráðstefnan fer fram dagana 21.–23. mars á Hótel Borealis að Efri-Brú í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Yfirskrift ráðstefnunnar er Okkar skoðun skiptir máli.

Frá ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði. Ráðstefnan er nú haldin í níunda skipti. Mynd: UMFÍ.

Kolbrún segir ungmennaráð og ungmennaráðstefnur skipta miklu máli, bæði fyrir ungmennin sjálf og fyrir ungt fólk yfir höfuð.

„Ég er stolt af því að vera í Ungmennaráði UMFÍ. Þar hef ég fengið mikla þekkingu og reynslu sem mun nýtast allt mitt líf. Ég nýti mér það nú í stúdentaráði Háskóla Íslands. Ég veit ekki hvort ég hefði vitað hvernig fundir virka nema af því að ég hef verið lengi í Ungmennaráði UMFÍ,“ segir Kolbrún Lára sem er 22 ára og hefur verið í ráðinu frá 17 ára aldri eða í um fimm ár.

Finnst þér ungt fólk hafa áhrif?

„Já, mér finnst við hafa mjög mikil áhrif. Eftir síðustu ungmennaráðstefnu á Laugabakka var haft samband við mig og ég spurð að því hvernig við skipuleggjum svona viðburði. Sá sem spurði talaði við ungmennaráðið í sínu sveitarfélagi og skipulagði þar ráðstefnu. Svo hefur fjöldi sveitarfélaga eins og Árborg og ýmsar stofnanir stofnað ungmennaráð. Þar taka ungmenni þátt í vinnu sveitarfélagsins,“ segir Kolbrún.

Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði hefur verið haldin árlega frá árinu 2009. Hún er ætluð ungu fólki á aldrinum 16 – 25 ára og hefur hún fest sig í sessi á meðal mikilvægustu viðburða fyrir ungt fólk á Íslandi.

Fjölmörgum þingmönnum og sveitarstjórnarfólki hefur verið boðið á ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði í næstu viku. Nokkrir hafa þegar þegið boðið, ýmist að vera við setninguna eða í pallborði. Þar á meðal eru Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar Grænt framboð, sem kom líka í fyrra, Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi í Árborg, Salvör Nordal og fleiri.

Nýjar fréttir