1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Að „kría saman“ fyrir knatthúsi

Að „kría saman“ fyrir knatthúsi

0
Sigurjón Vídalín Guðmundsson.

Það vakti athygli mína í Dagskránni sem kom út miðvikudaginn 7. febrúar sl. að sagt var frá því að sveitarfélaginu hefði tekist að „kría saman“ fyrir knatthúsi. Um er að ræða hús sem er um 3.000 fermetrar og rúmar hálfan fótboltavöll. Áætlað er að það kosti um 250 milljónir að reisa húsið og koma því í gagnið.

Hérna er því um að ræða hálft knattspyrnuhús og fyrir mitt leyti set ég spurningarmerki við það.

Er hálft knattspyrnuhús nægjanlegt til lengri tíma litið eða mun það verða of lítið innan skamms tíma?

Er hugsanlegt að hægt sé að byggja hús í fullri stærð fyrir helming af þeim kostnaði sem gert er ráð fyrir að kosti að byggja þetta hálfa hús sem kynnt hefur verið?

Einhverjir hafa bent á að uppblásanleg hús, líkt og er í Hveragerði, séu í notkun víða í Skandinavíu. Þau eru í fullri stærð en kostnaðurinn við að koma þeim upp sé um helmingi minni en við það hús sem nú er horft til. Stærra hús myndi væntanlega bera hærri rekstrarkostnað en á móti kæmi að það biði uppá mun fjölbreyttari starfssemi og fleiri notkunarmöguleika.

Ég tel brýnt að þessi möguleiki verði skoðaður alvarlega vegna þess að með þessu móti væri hægt að spara umtalsverðar fjárhæðir sem hægt væri að nýta í annað eins og til dæmis í að auka þjónustu við iðkendur og foreldra barna sem stunda íþróttir í sveitarfélaginu með því að bjóða uppá strætóferðir til og frá æfingum og/eða frekari niðurgreiðslu á æfingargjöldum.

Ekki má skilja orð mín svo að ég vilji ekki fá knatthús í sveitarfélagið. Því fer víðs fjarri og er ég mjög fylgjandi því að það verði reynt að koma slíku húsi upp. Mín afstaða til þess er hins vegar sú að það eigi að flýta sér hægt og að það eigi að reyna að koma upp knatthúsi í fullri stærð sem myndi bjóða uppá fjölbreyttari notkunarmöguleika og væri lausn til framtíðar en ekki bráðabirgðarlausn eins og þessi hugmynd um hálft hús kemur mér fyrir sjónir.

 

Sigurjón Vídalín, Dverghólum 28, Selfossi.