-1.6 C
Selfoss
Home Fréttir Eitt af því sem gefur lífinu lit

Eitt af því sem gefur lífinu lit

0
Eitt af því sem gefur lífinu lit
Þórir N. Kjartansson, Vík í Mýrdal.

Í lífi manns eru alltaf einhverjir fastir punktar og einhvern veginn verða þeir oft býsna mikilvægir þó ekki séu þeir neitt stórmerkilegir. Þegar skrifari þessa pistils var að alast upp á sveitabæ í Mýrdalnum um miðja síðustu öld, voru daglegu störfin alltaf þau sömu og gætu sumir haldið að lífið hafi verið ósköp tilbreytingalítið. En þar var eitt og annað sem braut upp þessa daglegu rútínu. Útkeyrslubíllinn frá Verslunarfélaginu í Vík kom t.d. á hverjum föstudegi með einhvern varning úr búðinni og þegar Ísafold & Vörður komu með póstinum var það merkisblað lesið upp til agna. En nú eru breyttir tímar. Framboðið af fréttum og upplýsingum er svo mikið að ekki verður hjá því komist að velja og hafna, þvi engin leið er að komast yfir eða fylgjast með öllu því sem að okkur er haldið í allri margmiðlunarflórunni. En að lesa fréttir og greinaskrif af tölvu og símaskjám verður samt aldrei alveg eins og að lesa það af blaði. Þess vegna er einn góður og fastur punktur í tilverunni hjá mér þegar Dagskráin dettur inn úr bréfalúgunni á hverjum fimmtudegi. Þessi vikulegi auglýsinga og fréttamiðill okkar Sunnlendinga er þar með orðinn eitt af því sem gefur lífinu lit. Einhvern veginn er það svo hjá mér að venjulega er það hún sem fyrst er dregin úr blaðabunkanum, enda prentuð á góðan pappír sem skilar fallegum myndum og læsilegu letri ásamt því að innihalda ýmislegt sem varðar okkar landsfjórðung. Já, Dagskráin hefur verið samferða okkur Sunnlendingum lengur en miðaldra menn muna. Vonandi verður svo enn um langa framtíð, enda tel ég að hún eigi áfram erindi við okkur með sitt fjölbreytta efni sem óhætt er að segja að sé bæði til gagns og gamans.

Þórir N. Kjartansson, Vík í Mýrdal