12.8 C
Selfoss
Home Fréttir Góður heimilisvinur

Góður heimilisvinur

0
Góður heimilisvinur
Óskar Hafsteinn Óskarsson, Hruna.

Dagskráin hefur verið heimilisvinur frá því ég man eftir mér.  Í fyrstu greip ég aðeins til hennar til að komast að því hvað væri í sjónvarpinu.  Síðar varð hún mikilvæg upplýsingaveita um málefni sveitanna og héraðsins.  Þá fór ég að drekka í mig fréttir af íþróttum, fundum, mannföngnuðum og sveitarstjórnarmálum á Suðurlandi.  Greinarskrif og skoðanaskipti fólks hafa líka fengið rými í Dagskránni sem oft er gagnlegt að geta fylgst með og sett sig inn í.  Þá má ekki gleyma messuauglýsingunum sem er algjörlega ómissandi vettvangur fyrir kirkjustarfið á svæðinu.  Öll umgjörð og framsetning í Dagskránni finnast mér til fyrirmyndar og ég hlakka ævinlega til að renna í gegnum hana þegar hún kemur í póstkassann.  Vikulegar auglýsingar um alls kyns kostaboð og þjónustu hafa iðulega freistað og fyrir þeim freistingum skal ég fúslega játa að hafa fallið margsinnis.  Og allt byrjaði það við lestur Dagskrárinnar!  Stundum var sagt að ef þú fengir ekki hlutinn í kaupfélaginu þá þyrftir þú einfaldlega ekki á honum að halda.  Oft hef ég rekið mig á það að ef viðburðurinn er ekki auglýstur í Dagskráinni þá heldur fólk að hann sé einfaldlega ekki á dagskrá!  Á tímamótum er mér ljúft að mega þakka fyrir margvísleg og góð samskipti við starfsfólk Dagskrárinnar í gegnum árin.  Þau hafa öll verið hin vinsamlegustu enda hvernig ætti svosem annað að vera hjá góðum heimilisvini?  Megi hálfrar aldar vinur Sunnlendinga eiga mörg ár farsæl enn.

Óskar Hafsteinn Óskarsson, Hruna.