8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Veðrið hefur áhrif á umferðina

Veðrið hefur áhrif á umferðina

0
Veðrið hefur áhrif á umferðina

Veðrið hefur haft mikil áhrif á umferðina á Suðurlandi undanfarið. Stundum getur það verið til bóta því einungis fjórir ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka of hratt. Afar sjaldgæft er að ekki séu höfð afskipti af fleirum vegna hraðaksturs. Hafa ber í huga að þó ekki sé ekið of hratt miðað við hámarkshraða á vegi þá getur verið að aðstæður leyfi ekki einu sinni þann hraða. Þessi staðreynd virðist flækjast fyrir þeim sem ekki hugnast lokun vega vegna ófærðar. Undanfarnar vikur höfum við fengið árekstra þar sem ekið er á ökutæki sem eru föst í sköflum og í einu tilviki urðu mjög alvarleg slys á gangandi vegfaranda sem hugðist aðstoða ökumann sem hafði fest bifreið sína í skafli. Engu breytir hversu stórar eða vel búnar bifreiðar eru, ökumaðurinn þarf að sjá það sem er framundan á vegi, líka björgunaraðila eða vegfarendur sem eru að vinna í kringum ökutæki sem þeir hafa fest eða hafa bilað á vegi.

Tuttugu og tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku. Í tveimur þeirra urðu minniháttar slys á fólki.

Einn er grunaður um að hafa ekið bifreið sinni undir áhrifum fíkniefna í liðinni viku. Sá hinn sami, sem var á ferð um Stokkseyri, reyndist einnig sviptur ökurétti vegna fyrri brota. Þá voru þrír kærðir fyrir að aka bifreiðum sínum ölvaðir, einn á Hellu, annar í Ölfusi, þar sem komið var að honum við að reyna að losa bifreið sina úr skafli, og sá þriðji á Selfossi.

Úr dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.