-5 C
Selfoss

Kyndilmessustund í Húsinu á Eyrarbakka í kvöld

Vinsælast

Ásdís Jóelsdóttir lektor við HÍ og Hildur Hákonardóttir listakona verða fyrirlesarar kvöldsins á Kyndilmessu í Húsinu á Eyrarbakka í kvöld föstudaginn 2. febrúar kl. 20.

Ásdís Jóelsdóttir kynnir bók sína Íslenska lopapeysan í máli og myndum. Uppruna lopapeysunnar má helst rekja til gróf- og fljótprjónaðra lopapeysa á bændur og sjómenn og  vinsælla útvistarpeysa á bæði kynin með einkennandi útprjónuðum hringlaga munsturbekkjum. Á sama tíma var hún orðin að minja- og lúxusvöru og síðar á sjötta og sjöunda áratugnum að eftirsóttri útflutningsvöru. Hversu góð söluvara lopapeysan hefur orðið má þakka því hve einföld hún er í framleiðslu og fljótunnin og er það þekking og reynsla íslenskra prjónakvenna ásamt ánægju þeirra af því að prjóna sem lagt hefur grunninn að hönnun og tilvist peysunnar. Innihald bókarinnar byggir á víðtækri rannsókn á rituðum heimildum og ljósmyndum auk þess sem tekin voru viðtöl við fjölda aðila sem á einhvern hátt höfðu komið að gerð og mótun peysunnar. Niðurstöður sýna að íslenska lopapeysan er séríslensk frumhönnun sem mótast hefur í samvinnu margra aðila og saga hennar og þróun er samofin samfélags-, iðnaðar-, útflutnings-, hönnunar– og handverkssögu þjóðarinnar.

Hildur Hákonardóttir ætlar að lesa pistil úr bókinni Walden og lífið í skóginum – sem hún er meðþýðandi að og hefur bókin vakið verðskuldaða athygli og fengið tilnefningu til þýðingarverðlauna. Höfundurinn H. D. Thoreau átti 200 ára fæðingarafmæli í heimalandi sínu Bandaríkjunum á síðasta ári. Hann var heimspekingur, barðist fyrir afnámi þrælahalds, og var mikill náttúruunnandi. Enginn hefur lýst náttúrunni á eins nákvæman hátt og með athyglisgáfu sinni lagði hann grundvöll að náttúruvísindum framtíðarinnar. Bókina skrifaði hann meðan hann hélt til í kofa sem hann sjálfur hjó timbrið í og klambraði saman. Hann bjó þar í tvö ár meðan hann var að samsama sig dýralífinu og hljóðunum í skóginum og þróa einfaldan lífsstíl. Bæði Gandhi og Martein Luther King sem stóðu í frelsisbaráttu, danska neðanjarðarandspyrnuhreyfingin og aðrir sem hafa barist fyrir réttlæti hafa sótt styrk til skrifa og hugsjóna Thoreaus. Hildur sem hefur sjálf skrifað og gefið út bækur um gróður og einfaldan lífsstíl og baráttu kvenna til jafnréttis segir Thoreau alla tíð hafa verið henni fyrirmynd og förunautur.

Í upphafi dagskrár verður í stuttu máli sagt frá Kyndilmessunni. Kyndilmessa, hreinsunarhátíð Maríu meyjar, er 40 dögum eftir fæðingu Krists sem ber upp á 2. febrúar ár hvert. Þá er mikil ljósadýrð við kaþólska guðþjónustu og dagurinn því kenndur við kerti eða kyndla og íslenska nafnið Kyndilmessa þaðan upprunnið segir í Sögu Daganna eftir Árna Björnsson.

Stundin hefst kl. 20, kaffiveitingar verða í hléi og aðgangur er ókeypis. Allir eru velkomnir.

Nýjar fréttir