8.9 C
Selfoss

Í leikskóla er gaman, þar leika allir saman…

Vinsælast

Laglína þessi er flestum orðin kunn og hefur oft verið kölluð „lag leikskólanna“. Fyrir okkur í Jötunheimum lýsir lagið í stuttu máli því starfi sem hér fer fram og þeirri upplifun að vera þátttakandi í leikskólastarfinu. Í leikskólanum Jötunheimum snýst hið daglega líf um leik, verkefni og samskipti en samfelldur tími fyrir leik er mikilvægur og miðar dagskipulagið að því. Það skiptir máli að gefa börnunum tækifæri til að læra á eigin forsendum og þróa með sér vináttu, skapandi hugsun og gleði. Leikurinn á vísdóm veit eru einkunarorð Jötunheima og viljum við að þau komi fram í öllu daglegu starfi. Leiknum hefur verið haldið á lofti í gegnum tíðina sem aðal náms – og þroskaleið barna. Barnið nýtir reynslu úr daglegu lífi og fjölbreytta upplifun úr náttúru, umhverfi og samskiptum til leikja. Af þeirri reynslu skapast þekking, leikni, athafnir og nýjar tilfinningar. Börnin læra jafnframt félagsleg samskipti með því að umgangast hvert annað.

…þeir leika úti og inni og allir eru með.

Skólaþjónusta Árborgar starfar í anda lærdómssamfélagsins. Það er líka markmið okkar hér í Jötunheimum og erum við því í vetur að vinna að þróunarverkefninu „Við erum eins og samfélag“- Uppbygging lærdómssamfélags í Jötunheimum. Nú eru einhverjir sem gætu spurt, hvað er lærdómssamfélag? Lærdómssamfélag er samvinna. Þar er lögð áhersla á að kennarar afli sér nýrrar þekkingar og læri saman í teymum og hver af öðrum. Rannsóknir sýna að samvinna, skoðanaskipti, lausnaleit og að takast á við málefni með faglegri aðstoð leiði til árangursríks skólastarfs. Þannig verði til starfshæfni og þekking sem er nauðsynleg í faglegu lærdómssamfélagi.

Þeir hnoða, leir og lita…

Sköpun og sjónrænt uppeldi er stór þáttur í leikskólastarfi með áherslu á tilfinningar og tjáningu. Það hvetur til skapandi og virkrar hugsunar og eykur sjálfstæði barnanna og trú á þeirra eigin getu. Í Jötunheimum er lögð áhersla á að börnin hafi frjálsan aðgang að fjölbreyttum efniviði. Þau fá síðan tækifæri til að tjá og túlka tilfinningar á ólíkan hátt og borin er virðing fyrir getu þeirra. Leikskólinn er fyrir öll börn með ólíkar þarfir og getu. Taka þarf tillit til mismunandi þroska og reynslu einstaklingsins og að hvert barn fái viðfangsefni við sitt hæfi og geti notið sín á eigin forsendum.

…þið ættuð bara að vita…

Þann 9. nóvember 2017 urðu Jötunheimar formlega þátttakandi í verkefni á vegum Embættis landlæknis um Heilsueflandi leikskóla. Því er ætlað að styðja leikskóla í að vinna markvisst að heilsueflingu og gera hana að hluta af daglegu starfi leikskólans. Það skemmtilega við þetta verkefni er að það leggur sérstaka áherslu á að vinna með átta lykilþætti sem tengjast skólastarfinu. Þeir eru: hreyfing, mataræði, geðrækt, öryggi, tannheilsa, fjölskylda, nærsamfélag og starfsfólk. Mikilvægast er að gefa sér góðan tíma í innleiðinguna og drög hafa verið gerð að innleiðingarferlinu sem áætlað er að taki 5-7 ár. Markmið okkar í ferlinu er að hafa leikgleðina í fyrirrúmi og standa saman um að gera Jötunheima að enn betri leikskóla þar sem allir fá að blómstra, bæði börn og fullorðnir.

…hvað allir eru duglegir í leikskólanum hér.

Jötunheimar!!!
Í tilefni þess að allir leikskólar landsins halda upp á dag leikskólans þann 6. febrúar verður opið hús í Jötunheimum þann dag frá 9:30-11:30 og 13:00-15:00. Við hlökkum til að sjá þig.

Júlíana Tyrfingsdóttir, leikskólastjóri Jötunheima.

Nýjar fréttir