7.3 C
Selfoss
Home Fréttir Aðeins um aðskilnað ríkis og kirkju og sóknargjöldin

Aðeins um aðskilnað ríkis og kirkju og sóknargjöldin

0
Aðeins um aðskilnað ríkis og kirkju og sóknargjöldin
Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur í Hruna.

Reglulega heyrast í umræðunni háværar raddir um aðskilnað ríkis og kirkju. Gjarnan fylgja vangaveltur um fjárhagsgrundvöll kirkjunnar og laun presta. Örstutt langar mig að leggja orð í belg og leitast við að skýra stöðuna.

Samningur um laun fyrir land
Árið 1997 gerði ríkisvaldið samning við þjóðkirkjuna. Samkomulagið fól í sér að ríkið tók yfir allar kirkjujarðir, utan þeirra sem þá voru enn prestsetur, en tók í staðinn að sér að greiða laun allra starfandi presta og biskupa kirkjunnar. Fjöldi presta sem fær laun samkvæmt samningnum tekur breytingum eftir því hvort fækkun eða fjölgun verður í hópi þeirra sem skráðir eru í kirkjuna. Ljóst er að þarna eru umtalsverðir fjármunir á ferðinni enda fékk ríkið afhentar afar verðmætar jarðir kirkjunnar á móti, m.a. stór landsvæði sem nú tilheyra Garðabæ og Álftanesi og einnig Akranesi. Er þá fátt eitt nefnt. Sem sagt: Þegar sagt er að prestar þiggi laun sín frá ríkinu þá er það ekki alveg rétt heldur er ríkið einfaldlega að borga samkvæmt samningi fyrir land sem það þegar hefur fengið afhent.

Eignaupptaka?
Sé vilji fyrir því að gera fullan aðskilnað ríkis og kirkju þarf að taka upp samninginn og þá annaðhvort afhenda kirkjunni jarðirnar til baka eða gera nýtt samkomulag við kirkjuna um lokauppgjör ríkisins á þessum landareignum. Þeir hins vegar sem halda því fram að ríkið geti einhliða slitið samningnum við kirkjuna, án eftirmála, eru í reynd að boða tvennt; opinbera eignaupptöku og að ekki þurfi að standa við gerða samninga. Viljum við búa í þannig samfélagi? Vel má færa rök fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju en þá hljótum við að vilja gera það eftir reglum réttarríkisins en ekki samkvæmt lögmáli frumskógarins.

Hvað þýðir úrsögn úr kirkjunni?
Um sóknargjöldin er það að segja að þau eru eins konar félagsgjöld sem ríkið sér um að innheimta fyrir trúar- og lífskoðunarfélög í landinu og gjaldið var árið 2017 kr. 920 á mánuði fyrir einstaklinga 16 ára og eldri. Í kirkjunni rennur hver króna sóknargjaldsins til kirkjustarfs í þeirri sókn sem þú tilheyrir. Með því að tilheyra kirkjunni ertu því að leggja þitt að mörkum til uppbyggingar á kirkju- og menningarstarfi í þínu nærumhverfi og treysta ákveðna grunnþjónustu samfélagsins. Má þar nefna fjölbreytt helgihald, kórastarf, tónleika, sálgæslu, barna- og æskulýðsstarf og ýmsa menningarviðburði. Úrsögn úr þjóðkirkjunni sem stundum er sprottin af óánægju með yfirstjórn kirkjunnar bitnar því að öllu leyti á því sem síst skyldi, nefnilega á kirkjustarfi í þinni heimabyggð.

Stöndum vörð um öflugt kirkjustarf í okkar heimabyggð!

Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur í Hruna.