7.8 C
Selfoss

Sala á þjónustu í hlöðum ON hófst í dag

Vinsælast

Í hlöðum Orku náttúrunnar, þar sem rafbílaeigendum er boðið upp á hraðhleðslu, er þjónustan seld frá og með deginum í dag 1. febrúar. ON hefur boðið rafbílaeigendum þessa þjónustu frítt allt frá árinu 2014 en hún er nú seld á 19 krónur á mínútu auk 20 króna fyrir hverja kílóvattstund. Rafbílaeigendur sem hyggjast kaupa þjónustuna verða að hafa virkjað hleðslulykil frá ON.

Hlustum á rafbílaeigendur
Síðustu vikur og mánuði hefur ON þróað og prófað sölukerfi fyrir þjónustuna í hlöðunum. Frá miðjum þessum mánuði hafa rafbílaeigendur getað fengið senda heim ON lykla sem ganga að hraðhleðslunum og svo virkjað þá með því að skrá greiðslukort á vef ON, www.on.is.

Talsverð umræða hefur orðið meðal rafbílaeigenda um sölufyrirkomulagið. „Við höfum fylgst með þessum umræðum, tekið þátt í þeim og tekið mark á þeim,“ segir Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON. „Verðlagningin sem nú er kynnt er breyting á upphaflegum áformum.“

„Við boðuðum eingöngu tímaverð eins og gengur og gerist í grannlöndunum. Það hefur þann kost að hvetja til sem bestrar nýtingar á hraðhleðslunum. Það átti að vera 39 krónur á mínútuna í hraðhleðslu. Sumum þótti það ekki sanngjarnt gagnvart eigendum bíla sem taka hægar inn á sig straum. Þess vegna höfum við ákveðið að fara blandaða leið,“ segir framkvæmdastjórinn. „Við lækkum verðið á mínútuna um meira en helming og seljum svo hverja kílóvattstund sem hlaðin er. Þannig tökum við tillit til ábendinga þeirra sem fannst á sig hallað.“

Tilboð á innleiðingartímanum
Á reynslutímabili sölukerfisins verður tímaverðið 17,10 krónur, sem er 10% lægra en í verðskránni sem ON gefur út. Þessu tilboði lýkur þegar festa verður komin á rekstur sölukerfisins en verður varanlegri afsláttur fyrir handhafa N1 kortsins í þeim hlöðum ON sem standa við þjónustustöðvar N1. Fyrirtækið hefur verið traustur samstarfsaðili ON við uppbyggingu þessara innviða fyrir orkuskipti í samgöngum. Af þeim 26 hlöðum með hraðhleðslum, sem ON hefur sett upp, standa sjö við þjónustustöðvar N1.

Nýjar fréttir