7.8 C
Selfoss

Hugsum frekar um gæði heldur en magn

Vinsælast

Í Hveragerði rekja hjónin Óðinn Birgir Árnason og Íris Ósk Erlingsdóttir fiskbúð sem nefnist Fiskverslun Hveragerðis. Búðin er í Breiðumörk 2 við hliðina á Ölverki. Þau opnuðu fiskbúðina í lok ágúst 2016 og hefur reksturinn gengið vel.

„Við seljum ferskan fisk í flökum og erum síðan með alls konar fiskrétti. Þetta er svona lítil búð, með lítið úrval í einu. Við reynum í staðinn að breyta svolítið til og höfum það sem við erum að bjóða upp á misjafnt eftir dögum og vikum. Núna erum við t.d. með hrogn og lifur sem oft tilheyrir þessum árstíma. Við erum líka með alls konar fiskrétti eins og marineraðan fisk, fisk í sósu, bollur og fleira,“ segir Óðinn.

Sushi er alltaf girnilegt. Mynd: Helena.

Fiskur og franskar vinsælt
Hann bætir við: „Síðan erum við líka að steikja fisk og franskar eða „fish and ships“ eins og það er oft kallað. Það er fyrst og fremst til að taka með sér en er einnig hægt að borða hér á staðnum. Við byrjuðum með það í maí í fyrra. Það er búið að vera mjög vinsælt og er frábær viðbót við það sem við erum með. Á föstudögum erum við yfirleitt með sushi. Þá bjóðum við upp á tólf bita eða bakka dagsins. Þá er bara notaður ferskasti fiskurinn þann daginn.“

Óðinn segir að þau reyni að hugsa frekar um gæði heldur en magn. „Og náttúrulega persónulega þjónustu. Ég á orðið marga vini hérna í fiskbúðinni sem er bara æðislegt.“

Fiskverslun Hveragerðis þjónustar líka fyrirtæki og mötuneyti og annað slíkt. Þeir aðilar kaupa ýmist ferskan fisk eða fiskrétti og hefur gengið mjög vel að sögn Óðins.

Nýjar fréttir