-5.9 C
Selfoss
Home Fréttir Heimildarit um fornar ferðaleiðir í Skaftárhreppi

Heimildarit um fornar ferðaleiðir í Skaftárhreppi

0
Heimildarit um fornar ferðaleiðir í Skaftárhreppi
Kirkjubæjarstofa. Mynd. visitklaustur.is

Kirkjubæjarstofa stendur að gerð bókarinnar Fornar ferðaleiðir í Skaftárhreppi en höfundur er Vera Roth. Í heimildaritinu gefur að líta helstu upplýsingar varðandi fornar ferðaleiðir í Vestur-Skaftafellssýslu eins og þær voru um miðbik 19. aldar og fram yfir aldamótin 1900. Sérstök áhersla er lögð á það landsvæði er nú tilheyrir Skaftárhreppi. Leitað hefur verið heimilda um helstu ferðaleiðir; í hvaða tilgangi menn fóru þær og hvar þær lágu í landinu, ásamt ferðasögum, ljósmyndum og öðrum frásögum er efninu tengjast. Úrval gamalla ljósmynda prýða bókina, margar þeirra eru úr myndasafni Lilju Magnúsdóttur en hún hefur unnið að söfnun og skráningu ljósmynda úr Vestur-Skaftafellssýslu. Rætt var við fjölmarga heimildarmenn, bæði heima í héraði sem og brottflutta Skaftfellinga og hafa þeir lagt til ómetanlegar upplýsingar svo sem um staðsetningu örnefna, frásögur, ljósmyndir og aðrar heimildir. Verkefnið hefur einnig notið veglegra styrkveitinga. Kirkjubæjarstofa þakkar öllum sem lagt hafa hönd á plóginn og gert þetta rit að veruleika.

Þeim sem hafa áhuga á að festa sér eintak af bókinni í forsölu er bent á að hafa samband sem fyrst við Kirkjubæjarstofu; sími 487 4645, 892 9650 eða senda tölvupóst á netfangið kbstofa@simnet.is. Bókin kostar 7.000 krónur í forsölu en verður um 9.000 krónur í smásölu. Útgefandi er Bókaútgáfan Sæmundur.