8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Ung tók ég ástfóstri við Arnald

Ung tók ég ástfóstri við Arnald

0
Ung tók ég ástfóstri við Arnald
Ágústa Ragnarsdóttir.

Ágústa Ragnarsdóttir, lestrarhestur Dagskrárinnar, er frá Þorlákshöfn en ættuð úr Hrunamannahreppi og Reykjavík og hefur búið eða dvalið á þessum þremur stöðum mestan hluta ævi sinnar. Í Þorlákshöfn býr hún ásamt eiginmanni, dóttur og húsketti. Hún er stúdent frá FSu, grafískur hönnuður frá MHÍ og með kennsluréttindi frá HÍ. Hennar aðalstarf í dag er myndlistarkennsla við FSu en í tómstundum nýtur hún útivistar af fremsta megni, teiknar, spilar á horn með Lúðrasveit Þorlákshafnar og síðast en ekki síst – les.

Hvaða bók ertu að lesa?
Þegar þetta er skrifað eru jólin og það er löng hefð fyrir því að ég og Arnaldur Indriðason höfum það kósý saman. Ung tók ég ástfóstri við Arnald og hefur aldrei slests upp á þann vinskap. Í seinni tíð hef ég verið svo heppin að finna gjöf frá jólasveininum undir koddanum mínum á aðfangadagskvöld og í henni er eitt stykki Arnaldur og bókin í ár heitir Myrkrið veit. Mér líkar vel hæglátur og oft knappur stíll hans. Mér líkar hvernig hann segir sögu nánast hverrar persónu sem kemur fyrir. Ég hef einnig gaman af því hvernig hann leitar til fortíðar og í hversdag 20. aldarinnar á ýmsum áratugum.

Hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Ég les bara eina bók í einu og klára hana áður en ég byrja á þeirri næstu. Hins vegar bíður mín nánast undantekningarlaust ólesinn bunki, ég passa upp á það. Ég les á hverju einasta kvöldi og hef gert síðan ég var barn, það er mín heilaga stund, alveg sama hvað það er mikið að gera og hvernig allt veltist. Fyrir mér er lestur hin fullkomna slökun. Í seinni tíð hef ég gert meira af því sem ég gerði sem barn og unglingur að lesa bara það sem mig langar að lesa þó það sé kannski ekki alltaf merkilegt í annarra augum.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Ég hef alltaf sótt í spennusögur. Enid Blydon í gamla daga og Victoria Holt á unglingsárum (þar fléttaðist auðvitað ástin inn í líka + enskt búningadrama). Í seinni tíð hefur verið gósentíð fyrir fólk eins og mig með tilkomu allra norrænu krimmanna sem margir hverjir eru frábærir. Eins hef ég unun af að lesa vesturfarasögur Böðvars Guðmundssonar Híbýli vindanna og Lífsins tré ásamt skáldsögum Kristínar Mörju Baldursdóttur um listakonuna Karítas.

Býrðu yfir áhugaverðri lestrarreynslu?
Í framhaldsskóla var Djöflaeyja Einars Kárasonar á dagskrá í einhverjum íslensku áfanganum. Ég man hvað mér fannst hún mögnuð, fyndin og sorgleg í senn. Óborganlegar persónur sem þar eru dregnar upp og lýsingarnar á braggalífinu. Mér fannst bókin frábær – kannski líka vegna þess að pabbi minn ólst upp í braggahverfi fyrstu sautján ár ævi sinnar og margt í bókunum undirstrikar hans upplifun. Ég hef síðan verið mjög trú verkum Einars Kárasonar og finnst hann skemmtilegur sagnamaður. Það má segja að þarna hafi vaknað áhugi fyrir ákveðinni tegund bókmennta.

En hver er uppáhalds barnabókin þín?
Ég hef alltaf átt erfitt með uppáhaldsspurningar. Ég verð því að hafa fleiritölu í þessu og nefni bækur Guðrúnar Helgadóttur um Jón Odd og Jón Bjarna og þær eldast líka vel. Bækur Enid Blyton eldast hins vegar ekki vel. Ýmsar teiknimyndasögur nefni ég líka og þar eru fremstir meðal jafningja Svalur og Valur. Þessar bækur ásamt fleirum marglas ég sem krakki.

Getur þú sagt frá bók sem hafði sérstaklega mikil áhrif á þig?
Enn og aftur er erfitt að nefna einhverja eina bók og nefni ég því nokkrar: Hálfbróðirinn eftir Lars Saabye-Christensen, Bláa minnisbókin eftir James A. Levine, Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur og Berlínaraspirnar eftir Anne B. Ragde – meiriháttar bækur um ýmsar hliðar mannlegrar tilveru og hvað við í raun ráðum oft litlu um örlög okkar.

Að lokum Ágústa er til líf án bóka?
Mér finnst erfitt að ímynda mér það þar sem bókin er svo samofin mínu lífi og mitt athvarf frá önnum hversdagsins. Ég á minningar úr barnæsku eins og að lauma mér inn í herbergi á milli verka í sveitinni með einhverja bókina úr bókasafni afa og ömmu, að koma heim úr gaggó í gamla daga, poppa og lesa aðeins áður en farið var að læra, trítla í kvistherbergið sitt þegar stundað var nám í MHÍ, narta í ost og lesa og í seinni tíð að skella sér í heitan pott með bók í hendi. Og á hverju kvöldi kúra líkamlega milli mjúkra værðarvoða en þó stödd í öðrum heimi. Nei, mér hugnast ekki líf án bóka. Ég verð ævinlega þakklát fyrir aðgengi mitt að þeim.