5.6 C
Selfoss

SÍBS Líf og heilsa á Suðurlandi dagana 22. til 26. janúar

Vinsælast

Boðið verður upp á ókeypis heilsufarsmælingar á Selfossi, Hellu og Þorlákshöfn dagana 22. til 26. janúar. Mældur er blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, súrefnismettun og fleiri gildi, auk þess sem fólki gefst kostur á að taka þátt í lýðheilsukönnun. Hjúkrunarfræðingar frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands veita ráðgjöf og eftirfylgd og bóka tíma í læknisskoðun á staðnum ef ástæða þykir til, að því er segir í tilkynningu frá SÍBS.

Forvarnaverkefnið SÍBS Líf og heilsa er unnið í samstarfi SÍBS, Hjartaheilla, Samtaka lungnasjúklinga og Samtaka sykursjúkra. Alls hafa yfir 3000 eintaklingar á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi farið í ókeypis mælingu.

Snemmgreining skilar sér margfalt
Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS, segir að mælingar á Suðurlandi séu liður í hringferð SÍBS Líf og heilsu og stefnan sé sett á að allir landsmenn hafi fengið boð um mælingu í árslok 2018, enda sé um mikilvægt forvarnaverkefni að ræða.

„Ef hægt er að varna því að einstaklingur látist 20 árum fyrir aldur fram eða verji jafn löngum tíma við örorku af völdum lífsstílstengdra sjúkdóma, þá sparar það samfélaginu 150 milljónir króna mælt í landsframleiðslu á mann, að ótöldum þeim mannlega harmleik sem að baki býr. Þar sem grunnkostnaður við hverja mælingu er um 1.500 krónur skilar ein slík snemmgreining sér hundraðþúsundfalt,“ segir Guðmundur. Guðmundur segir að í hvert skipti sem mælt sé finnist einstaklingar sem í kjölfarið leiti á heilsugæsluna til að fá staðfest hvort þeir þurfi á meðferð að halda við m.a. háþrýstingi, of háu kólesteróli eða skertu sykurþoli. Ódýr lyfjagjöf ásamt ráðgjöf um bættan lífsstíl geti þar gert gæfumuninn.

Stuðningur lykilatriði
„Stuðningur hins opinbera við heilsufarsmælingar SÍBS Líf og heilsu hlýtur að vera ein besta fjárfesting í annars stigs forvörnum sem miða að því að stöðva framgang sjúkdóms,“ segir Guðmundur. „Öll önnur inngrip sem koma þar á eftir ef einstaklingurinn þróar með sér sjúkdóm eru í senn dýrari fyrir samfélagið og afdrifaríkari fyrir einstaklinginn.“

Að sögn Guðmundar hefur það skipt sköpum að SÍBS Líf og heilsa hefur notið stuðnings Máttarstólpa SÍBS, sem séu einstaklingar og fyrirtæki sem styrkja fræðslu- og forvarnastarf samtakanna. Hægt sé að gerast Máttarstólpi með því að hringja í síma 560 4800 á skrifstofutíma eða senda tölvupóst á mattarstolpar@sibs.is.

Nýjar fréttir