0 C
Selfoss

Hrunamenn/Þór Þ. bikarmeistarar í 9. flokki drengja

Vinsælast

Sameiginlegt lið Hrunamanna/Þórs Þorlákshafnar mætti liði Keflavíkur á sunnudaginn í Laugardalshöllinni í bikarúrslitaleik í 9. flokki drengja í körfubolta. Hrunamenn/Þór Þ. leika í A-deild í deildarkeppninni 9. flokks drengja í vetur á meðan Keflavíkingar leika í B-deild.

Hrunamenn/Þór Þ. fóru vel af stað og komust í 14-5. Þeir léku sterka vörn sem reyndist Keflvíkingum erfið. Eins voru þeir beittir í sókninni. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 22-13. Hrunamenn/Þór Þ. héldu áfram að sækja af miklum krafti og unnu 2. leikhlutann 17-5 og voru því yfir í hálfleik 39-18. Sama var upp á teningnum í 3. og 4. leikhluta en Hrunamenn/Þór Þ. voru með algjöra yfirburði og lönduðu stórum sigri 79-43.

Eyþór Orri Árnason átti frábæran leik fyrir Hrunamenn/Þór Þ., skoraði 23 stig og var með 11 stoðsendingar og stjórnaði spilinu fyrir sitt lið. Hrunamenn/Þór Þ. fengu gott framlag frá mörgum mönnum og margir sem lögðu sitt af mörkum til að landa sigrinum. Aron Ernir, Eyþór Orri og Ísak Júlíus voru frábærir og áttu stóran þátt í sigri Sunnlendinga.

Nánari umfjöllun um leikinn og myndir má sjá inn á karfan.is.

Nýjar fréttir