11.1 C
Selfoss

Af verkefnum stórum og smáum við Byggðasafn Árnesinga

Vinsælast

Lýður Pálsson, safnstjóri Byggðasafns Árnesinga.
Lýður Pálsson, safnstjóri Byggðasafns Árnesinga.

Fjölbreytt starfsemi er við Byggðasafn Árnesinga á Eyrarbakka. Sumarsýningin fallega Kjóllinn hefur sungið sitt síðasta. Árviss jólasýning með elsta spýtujólatré landsins í öndvegi er opin frá byrjun aðventu til þrettánda.

Byggðasafn Árnesinga er rekið af Héraðsnefnd Árnesinga sem er byggðasamlag átta sveitarfélaga í Árnessýslu um rekstur nokkurra stofnana á héraðsvísu. Safnið gegnir ákveðnu hlutverki samkvæmt stofnskrá sem er að safna, skrá, varðveita og sýna merka muni úr héraðinu. Frá 1995 hefur aðalstarfsemin verið í Húsinu á Eyrarbakka, hinu merka faktorshúsi frá 1765, en árið 2002 var innri aðstaðan, geymslur og skrifstofa, tekin í notkun að Hafnarbrú 3 á Eyrarbakka. Í túnfæti Hússins er hið glæsilega Sjóminjasafn sem Eyrbekkingar byggðu upp á sínum tíma og er rekið af Byggðasafni Árnesinga í dag. Litla snotra almúgahúsið Kirkjubær var opnað almenningi 2016. Safnið sér um sýningarhald í Þuríðarbúð á Stokkseyri og rekur Rjómabúið á Baugsstöðum fyrir marga eigendur sína. Næg eru verkefnin við safnið og sýningar og tengdir viðburðir eru eins oft og fjárhagur leyfir. Og gestir streyma á safnið.

Sumarsýningar

Frá 1995 hafa fjölmargar sýningar verið settar upp í borðstofu Hússins á Eyrarbakka. Kjóllinn er með skemmtilegri sýningum sem þar hafa verið sett upp. Kjólar úr safneign, einkum úr fórum Guðfinnu Hannesdóttur og Helgu Guðjónsdóttur, voru á sýningunni auk kjóla sem almenningur lánaði. Margir viðburðir, fyrirlestrar, Lindí-hopdans, dragsjóv, kaffi með Auðbjörgu síðasta íbúa Hússins, kynningar og tónleikar voru í tengslum við sýninguna og hún var síbreytileg um allt sumarið. Kjóllinn féll í góðan jarðveg og aðsókn var góð. Nú hefur sýningin verið tekin niður, kjólum verið skilað til eigenda sinna og kjólum úr safneign komið til varðveislu í góðum hirslum safnsins. Sumarið 2018 opnar sýning þar sem fullveldisárið 1918 verður viðfangsefnið. Sýninguna vinnur safnið í samvinnu við listhönnuðinn Ástu Vilhelmínu Guðmundsdóttur sem vinnur gjarnan verk sín úr náttúrutengdu efni.

Sýningin „Kjóllinn“ vakti mikla athygli í sumar. Ljósm. Linda Ásdísardóttir.
Sýningin „Kjóllinn“ vakti mikla athygli í sumar. Ljósm. Linda Ásdísardóttir.

Húsnæðiskostur safnsins

Húsnæðismál hafa verið í deiglunni meðal stjórnar og eigenda safnsins. Fyrir liggur að geymsla Sjóminjasafnsins við Mundakot verður ekki mikið lengur í því hlutverki. Og jafnframt hefur Sveitarfélagið Ölfus óskað eftir að safnið taki að sér varðveislu safnmuna Byggðasafns Ölfuss sem Gunnar heitinn Markússon safnaði til á sínum tíma. Ljóst er að Byggðasafn Árnesinga þarf nýtt geymsluhús og verður það vonandi að veruleika á næstunni. Og sömuleiðis eru hugmyndir að auknu sýningarhaldi til umræðu meðal starfsmanna safnsins en sú umræða bíður síns tíma, enda stutt síðan sýningarrými safnanna á Eyrarbakka stækkaði með tilkomu Kirkjubæjar.

Jólasýning

Nú á aðventu og fram á þrettánda er hægt að skoða jólasýningu Byggðasafns Árnesinga. Hún byggir á safnkosti, einkum gömlum jólatrjám og margskonar jólaskrauti sem einkenndu heimilin í héraðinu um jólin. Safnið er svo ríkt að eiga elsta varðveitta jólatré landsins sem smíðað var af Jóni Jónssyni bónda og hagleiksmið í Þverspyrnu í Hrunamannahreppi fyrir Kamillu Briem prestfrú í Hruna árið 1873. Það þykir mjög formfagurt og er myndhöggvarinn Einar Jónsson eitt sinn sagður hafa dregið upp línur þess þegar hann átti leið um Hruna. Undanfarna áratugi hefur gamla jólatréð verið skreytt lyngi ár hvert. Jafnframt ber safninu að tryggja varðveislu þess. Af þeirri ástæðu var ákveðið að fela Guðmundi Magnússyni á Flúðum að smíða nákvæma eftirlíkingu Hrunatrés. Verður eftirlíkingin hér eftir skreytt lyngi fyrir hver jól en gamla Hrunatréð haft til sýnis lynglaust.

Jólatréð skreytt. Þessi mynd er tekin á aðventu fyrir nokkrum árum og sýnir Elínborgu Guðmundsdóttur, Hildi Hákonardóttur, Guðborgu Aðalsteinsdóttur, Auðbjörgu Guðmundsdóttur og Guðrúnu Tryggvadóttur skreyta gamla jólatréð frá Hruna og síðar Oddgeirshólum. Ljósm. Lýður Pálsson.
Jólatréð skreytt. Þessi mynd er tekin á aðventu fyrir nokkrum árum og sýnir Elínborgu Guðmundsdóttur, Hildi Hákonardóttur, Guðborgu Aðalsteinsdóttur, Auðbjörgu Guðmundsdóttur og Guðrúnu Tryggvadóttur skreyta gamla jólatréð frá Hruna og síðar Oddgeirshólum. Ljósm. Lýður Pálsson.

Jól í Húsinu

Jólatré eru aðal tákn jólanna nú til dags. Jólatré komu til sögunnar í upphafi 19. aldar í Evrópu og kom þessi siður til Íslands með dönskum kaupmönnum og danskættuðu fólki. Jólatré hafa verið hluti af jólahaldi Hússins á Eyrarbakka frá 1847 en hjónin Sylvía og Guðmundur Thorgrímsen kaupmaður komu á Eyrarbakka frá Kaupmannahöfn þar sem skreytt jólatré í stofunni voru orðin jólasiður meðal borgara í stórborginni. Varðveist hefur frásögn sonar þeirra af jólahaldi í Húsinu og er sú frásögn miðuð við tímabilið 1855-1870. Hans Baagöe hét sonurinn sem sagði svo frá jólunum í Húsinu í sinni bernsku:

„Man ég eftir baðinu á aðfangadag? Við vorum böðuð reglulega upp úr sjó sem vinnumennirnir komu með úr fjörunni sem var rétt hjá, margar fötur í karið. Og rauðu sokkunum og leðurskónum, eina skiptinu sem okkur var leyft að vera í þessum klæðnaði, og svo jólatrénu, heimagerðu úr spýtum, sem við horfðum á í andakt, en seinna var það þakið með einiviðargreinum. Mikið af eplum og sætindum. Ein jólin fékk ég lítinn vasahníf í jólagjöf, önnur rauð axlabönd, það var allt og sumt. Ein jólin bjó faðir minn til frekar stóran helli úr einiviðargreinum og setti lítið kristlíkneski eftir Thorvaldsen inn í hann, hagræddi því svo að það lýstist upp. Svo stóðum við fyrir framan hellinn og sungum jólalög, fyrst „Heims um ból”. Við fengum ekki að sjá þessi tré eða hella fyrr en stofan var opnuð, sáum þau aldrei fyrr en á aðfangadagskvöld eftir jólamatinn. En helgidómurinn var opnaður og við fórum inn með sterka gleði og eftirvæntingu í augum okkar og hjörtum.“

Með þessum orðum Hans Baagöe Thorgrímsen óska ég lesendum Dagskrárinnar gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Lýður Pálsson,
safnstjóri Byggðasafns Árnesinga.

Ágústa Eva Erlendsdóttir söngkona kom og söng fyrir gesti í stássstofunni í haust. Ljósm. Linda Ásdísardóttir.
Ágústa Eva Erlendsdóttir söngkona kom og söng fyrir gesti í stássstofunni í haust. Ljósm. Linda Ásdísardóttir.
Skólahópur úr Vallaskóla lítur tólfróna teinæringinn Farsæl augum í heimsókn á Sjóminjasafnið. Ljósm. Lýður Pálsson.
Skólahópur úr Vallaskóla lítur tólfróna teinæringinn Farsæl augum í heimsókn á Sjóminjasafnið. Ljósm. Lýður Pálsson.
Húsið og Eyrarbakkakirkja í þokunni. Ljósm. Linda Ásdísardóttir.
Húsið og Eyrarbakkakirkja í þokunni. Ljósm. Linda Ásdísardóttir.

Nýjar fréttir