6.1 C
Selfoss

Færðum okkur upp úr jörðinni á einn besta stað í bænum

Vinsælast

Rakarastofa Kjartans og Björns búin að vera 20 ár í Miðgarði

„Afi minn Gísli Sigurðsson flutti til Selfoss 1948 og byrjaði hérna eftir að hafa verið rakari í Reykjavík um árabil. Um 1968 byrjaði pabbi að vinna formlega hjá honum heima á Kirkjuveginum. Afi var fyrstu árin hjá Hildiþóri kaupmanni á Eyravegi 7 með aðstöðu en fór síðan 1953 á Kirkjuveg 17 eftir að hafa byggt þar. Afi dó 1970 og pabbi opnaði síðan 4. desember 1971 á Eyravegi 5 í húsi sem heitir Hamar hjá þeim Dodda og Sigga og því heiðursfólki. Þar vorum við í 26 ár. Ég byrjaði vorið 1983 að vinna á stofunni þá 18 ára og Björn Daði bróðir minn árið 1999. Þetta húsnæði á Eyrarveginum var aðeins niðurgrafið og orðið svolítið gamalt. Þannig að við horfðum aðeins til nýrra tíma með þetta, þ.e. hvort við gætum farið í stærra húsnæði. Samt var þetta svolítið viðkvæmt því við vorum orðnir rótfastir þarna. Það vissu allir hvar við vorum,“ segir Kjartan Björnsson rakari.

Fannst þetta full mikil framhleypni

„Pabbi sagði við mig að þetta húsnæði sem við værum í myndi sennilega alveg duga. Þá var hann fimmtugur og fannst þetta vera allt í lagi. Ég var heldur framgjarnari í þessu. Ég frétti að þeir Jáverksmenn sem þá voru, Gísli og Jón Árni, væru að byrja að byggja hús sem nú stendur við Austurveg 4. Þeir voru byrjaðir að byggja og komnir svolítið af stað með það. Ég segi við pabba hvort við eigum ekki að skoða það alvarlega að fara þarna alveg í miðbæinn. Þá segir pabbi; „Nei, eigum við ekki aðeins að hugsa þetta“. Ég fann að ég komst ekkert áfram með pabba. Honum fannst hitt vera nóg. Ég hugsaði með mér að best væri að fara og kanna málið og ég fór og talaði við Gísla Ágústsson. Þá var búið að taka frá plássið þar sem Ljósmyndastofan var lengst af. Þá segi ég við hann að ég taki bara miðrýmið. Ég opna þá bara stofu sjálfur og skil „gamla“ eftir. Þessi möguleiki opnaðist þ.e. að við gætum fengið þetta rými. Ég segi honum þetta ekki alveg strax. Það varð auðvitað uppi fótur og fit þegar ég tilkynnti honum að ég væri búinn að panta pláss. Pabbi segir þá við mig “…andsk. afskiptasemi þetta væri“ en þá var ég búinn að kaupa mig inn í Rakarastofuna eftir að hafa lært hjá honum. Þannig að ég réði kannski helmingnum. Honum fannst þetta full mikil framhleypni. Síðan fór hann og skoðaði þetta með mér og þá fannst honum þetta auðvitað alveg brilliant. Við færðum okkur þannig séð upp úr jörðinni á einn besta stað í bænum.“

Fluttu með manni og mús 13. nóvember 1997

Það var svo í september 1997 sem þeir feðgar skrifuðu undir samninginn um að leigja þetta nýja húsnæði. Stofan var svo flutt með manni og mús að kvöldi 13. nóvember það ár. Núna 14. nóvember sl. er hún því búin að vera í Miðgarði í slétt tuttugu ár en Miðgarður opnaði akkúrat á þessum tímamótum. „Lengst af var gleraugnaverslun með okkur og snyrtistofan Myrra og svo var ljósmyndastofa lengst af. Síðan var svolítil hreyfing á fimmta bilinu, fyrirtæki sem komu og fóru, verslunin Íris var lengi. Í dag er hér Domusnova fasteignasala, ungir menn með tölvurekstur og ýmislegt, Cléopatra fataverslun og síðan Snyrtistofan Eva,“ segir Kjartan.

„Hér höfum við verið í tuttugu ár og erum afskaplega glaðir. Við hefðum ekki viljað snúa til baka, þetta hús hefur bara dafnað vel. Þetta er svolítil afsteypa af gamla Kaupfélagshúsinu nú ráðhúsinu og fellur vel inn í. Einu sinni var hjá mér sumarbústaðakarl og konan hans spurði hvort við værum búnir að vera lengi hérna. Ég segi nei eða bara frá því að húsið var byggt 1997. Þá segir sá gamli sem var með henni; „Hvaða rugl er þetta. Ég er búinn að vera með sumarbústað síðan 1970 og þetta hús hefur alltaf verið hérna síðan ég fór að koma á Selfoss“. Ég varð að fara í myndaalbúm og sýna honum Hálandaleika sem voru hér á planinu til að fá hann ofan af þessu.“

Ómögulegt annað en að finna nafn á húsið

Kjartan segir að þeir hafi fljótlega farið í það verslunareigendur í húsinu að athuga með nafn á húsið. Þá var alltaf verið að segja ;„Æ þarna í húsinu sem Rakarastofan er“. Það var auðvitað ómögulegt og þeir urðu að finna nafn á húsið og stóðu fyrir heilmikilli nafnasamkeppni. Það var gert með miklum bravör og margir sem tóku þátt. Út úr því kom nafnið Miðgarður. Rétt fyrir austan Miðgarð, við gömlu bensínstöðina hjá Kaupfélaginu sem var hérna, var hús sem hét Garður. M.a. þess vegna þótti gott að nota nafnið Miðgarður.

Oft brak og brestir og stundum tekist á

Á stofunni vinna núna bræðurnir Kjartan og Björn Daði og faðir þeirra Björn Ingi. Þar vinnur einnig Guðrún Þórhallsdóttir, en hún hefur unnið hjá þeim af og til með hléum í gegnum árin í afleysingum. Núna er hún komin til fastra starfa, vinnur hálfa vinnu.

„Björn Daði bróðir minn er fyrsti og eini neminn minn sem ég hef tekið. Hann er búinn að vera í þessu í 18 ár. Ég er búinn að vera síðan vorið 1983. Pabbi byrjaði 1968 en segist hafa skrifað undir samninginn eitthvað fyrr. Við störfum hérna saman en það hafa oft verið brak og brestir í samstarfinu og stundum tekist á. Við feðgarnir höfum samt haft ótrúlega gaman af því að starfa hér saman og átt dásamlegar stundir. Þó pabbi sé kominn á góðan aldur er hann ekki farinn að minnka við sig að ráði, ekki svo hann taki eftir en við erum svona aðeins mýkri við hann. Ef það er rólegt leyfum við honum bara að fara heim og köllum svo á hann ef það er komin traffík. Svo erum við ekki alltaf a pína hann á laugardögum. Hann er í góðu formi karlinn og hefur bara gaman af þessu.“

Íþróttir, pólitík og eitt og annað rætt

„Hér er auðvitað gríðarlega mikil félagsmiðstöð. Hér kemur fólk í kaffi, jafnvel þó það sé ekkert að fara í klippingu og hér eru heimsmálin rædd. Það eru íþróttir, pólitík og eitt og annað eða þá bara eitthvað allt annað. Við eigum sennilega eitthvað í kringum 2000 myndir af viðskiptamönnum í gegnum árin. Við höldum vel utan um þetta og ætlum að halda á þessu sýningu, væntanlega í ágúst á næsta ári því þá eru 70 ár síðan afi kom á Selfoss með rakarastofu og Rakarastofan opnaði formlega.,“ segir Kjartan að lokum.

Viðtal/mynd: ÖG.

Nýjar fréttir