1.1 C
Selfoss

Aðventuhátíð að Laugalandi í Holtum

Vinsælast

Kvenfélagið Eining í Holtum stendur fyrir sinni árlegu aðventuhátíð á morgun sunnudaginn 3. desember að Laugalandi í Holtum. Hátíðin hefst kl. 13:00 og henni lýkur kl. 16:00.

Aðventuhátíðin hefur verið haldin fyrsta sunnudag í aðventu allt frá árinu 2001. Markmiðið með hátíðinni hefur frá upphafi verið að fá fólk til að koma saman í upphafi aðventu, njóta þess sem boðið er upp á og komast í jólaskap.

Dagskrá hátíðarinnar í ár verður að mestu með hefðbundnu sniði. Skólabörn frá Laugalandi munu kveikja á fyrsta kertinu á aðventuljósinu. Úti verða jólaljós tendruð á jólatrénu kl. 13:30, sóknarprestur flytur stutta hugvekju og jólasveinar koma á staðinn og ganga með börnunum í kringum jólatréð. Innan dyra er handverksfólk með kynningar og sölubása þar sem má versla m.a. lopavörur, kerti og sápur. Þá selja bændur afurðir sínar beint frá býli. Sérstakur gestur hátíðarinnar verður Hulda Brynjólfsdóttir, sem á og rekur spunaverksmiðjuna Uppspuna. Hulda mun kynna hvernig staðið er að ullarvinnslunni auk þess sem hægt verður að kaupa garn frá Uppspuna.

Hin veglega jólatombóla Barnasjóðs Einingar verður á sínum stað, en allur ágóði hennar rennur óskiptur til málefna barna í sveitarfélaginu. Mikill metnaður er ávallt lagður í tombóluna og hefst undirbúningur hennar tímanlega á haustin. Félagskonur í Einingu leita til fyrirtækja í sýslunni og víðar eftir framlagi auk þess að leggja sjálfar til ýmislegt sem eykur fjölbreytni vinninga. Verði á miðum er stillt í hólf og allir fá vinning. Á þessari tombólu eru engin núll.

Kvenfélagið Eining fagnar 95 ára afmæli í ár, en félagið var stofnað 12. desember 1922. Afmælisbörn bjóða gjarna til kaffisamsætis. Kvenfélagið gerir slíkt hið sama og verða kaffiveitingar á aðventuhátíðinni í boði þess.

Það er von kvenfélagskvenna að sem flestir sjái sér fært að mæta á aðventuhátíð Einingar þann 3. desember næstkomandi.

Nýjar fréttir