6.1 C
Selfoss

Það breyttist allt og þetta varð bara meiri verslun

Vinsælast

Fyrir tíu árum opnuðu mæðgurnar Ásta Björg Kristinsdóttir og Erla Gísladóttir gjafavöruverslunina Motivo á Selfossi. Verslunin var fyrst til húsa að Eyravegi 15 en flutti í mars 2009 í núverandi húsnæði að Austurvegi 9.

Þær mægður Ásta og Erla komu í stutt viðtal við Dagskrána þar sem rætt var um reksturinn þessi tíu ár og þau tímamót sem verslunin er á núna.

„Við erum að verða 10 ára og okkur finnst þetta ákveðin tímamót þ.e. að hafa rekið þetta á sömu kennitölunni í tíu ár,“ segir Erla.

Hvernig kom það til að þið mæðgur fóruð út í þennan rekstur?

Ásta: „Það var nú aðallega af því að mig vantaði vinnu á veturna. Ég var byrjuð að vinna hjá Icelandair og var þar í hlutastarfi á sumrin og vantaði s. s. eitthvað að gera á veturna með því starfi. Mamma var þá að vinna í bankanum en ég var þá hér á veturna. Þegar við byrjuðum fékk mamma launalaust leyfi á sumrin og var þá í búðinni á meðan ég var að fljúga. Ég var svo í þessu á veturna. Svo þegar ég fékk fastráðningu hjá Icelandair og byrjaði þar í fullu starfi hætti mamma í bankanum og byrjaði hér í fullu starfi. En ástæðan fyrir því að við byrjuðum með verslunina var s.s. sú að mig vantaði vinnu á veturna og langaði að búa hérna á Selfossi.“

Ásta bjó í Danmörku í eitt ár áður en hún flutti á Selfoss 2006. Hún segist þá hafa verið búin að sjá búð sem hún var mjög hrifin af, búð sem var sambland af fatnaði og gjafavöru. „Það festist svolítið í mér. Þá var í rauninni ekki til nein alvöru lífstílsverslun hér á Íslandi, þannig að ég vil meina að við höfum verið á meðal þeirra fyrstu sem opnuðum svona búð hér á landi, búð sem er svolítil blanda af fatnaði og gjafavöru. Í dag eru komnar nokkrar svipaðar verslanir í Reykjavík.“

Hvenær byrjuðu þið svo?

Erla: „Við opnuðum í nóvember 2007. Við fluttum síðan hingað á Austurveginn í endaðan mars 2009. Við fórum þá að byggja betur undir verslunina þ.e. þegar við vorum komnar á þennan stað. Við fundum gríðarlegan mun þegar við vorum komnar hingað á Austurveginn. Það var bara allt annað og ekki hægt að líkja því saman. Það breyttist allt og þetta varð bara meiri verslun. Það voru fleiri sem komu inn. Svo finnum við eftir þennan tíma, bæði í gegnum starf Ástu og ýmsan félagsskap sem ég er í, að það eru flest allir sem vita af versluninni. Það hefur breyst mikið.“

Ásta: „Við höfum fundið mun ár frá ári. Fólk veit orðið hvar búðin okkar er í dag. Fyrir fimm til sex árum vissi fólk kannski ekki hvað þetta nafn var. Við höfum náð að skapa okkur ágætan sess á landsvísu í raun og veru.“

Erla: „Við höfum stundum verið spurðar hvort þessi búð sé ekki í Reykjavík.“

Hvernig er vörusamsetning hjá ykkur í dag?

Ásta: „Við erum helst með skandinavískar hönnunar- og gjafavörur. Og í raun og veru fatnað líka frá Skandinavíu. Stærsti hlutinn er skandinavískar vörur. Við erum með iittala, Kähler og Rosenthal í gjafavörunni sem dæmi. Í fatnaðinum erum við með Elton, Freequent og Point Neuv, sem eru mjög þekkt dönsk merki. Þetta eru merki aðallega fyrir aldurshópinn 35 til 40 plús.“

Erla. „Svo höfum við aðeins verið að flytja sjálfar inn, eins og Vertiplants, en ég veit ekki um neinn sem flytur það merki inn. Það eru alla vega margir sem hringja í okkur utan af landi og eru að leita að einhverju sem er aðeins öðruvísi.“

Ásta: „Við erum líka alltaf að leita að nýjum merkjum inn á markaðinn.“

Erla: „Við höfum líka verið með það helsta úr íslenskri hönnun eins og t.d. frá Sveinbjörgu á Akureyri, Heklu Íslandi og Ingibjörgu Hönnu (IHANNA HOME), en þetta eru stærstu aðilarnir í þessu sem við höfum verið með. Það hefur orðið mikið aukning í þeirri sölu. Við bættum við Heklu Íslandi í fyrra og það er eiginlega að verða stærsta merkið sem við erum með af þessu íslenska núna.“

Hvað ætlið þið svo helst að gera í kringum 10 ára afmælið?

Ásta: „Við ætlum að vera með afmælisviku sem byrjar fimmtudaginn 16. nóvember þegar kveikt verður á jólaljósunum hér á Selfossi. Hún verður fram til 22. nóvember. Við ætlum að vera með ýmis tilboð og gjafaleiki. Fólk getur tekið þátt bæði hérna í búðinni og líka á Facebook síðunni okkar.“

Erla: „Það er líka gaman að segja frá því að við opnuðum akkúrat á fimmtudeginum þegar kveikt var á jólaljósunum í Árborg fyrir tíu áru síðan. Svo verðum við líka með útsölumarkað í kjallaranum hjá okkur yfir helgina. Þar verðum við með afslátt og einhverjar vörur sem við erum að hætta að vera með, útstillingavörur, gamlan lager o.fl. Þetta verða s.s. vörur sem eru oftast með 50% afslætti eða meira“

Hvernig sjáið þið framtíðina?

Ásta: „Við erum búnar að vera að vaxa og tekið eitt skref í einu í að byggja okkur upp og byggja upp í kringum búðina. Við höfum aldrei tekið mjög stór skref í einu. Við byrjuðum lítið og höfum síðan alltaf verið að reyna að smá stækka. Vonandi höfum við kost á því að stækka enn frekar við okkur ef fyrirhugaðar áætlanir um nýja miðbæjinn ganga eftir.

Að lokum var Ásta spurð hvað orðið Motivo þýðir. „Motivo er ítalskt samheitaorð yfir hönnun“.

Nýjar fréttir