7.8 C
Selfoss
Home Fréttir Legstein á leiði Viggu gömlu

Legstein á leiði Viggu gömlu

0
Legstein á leiði Viggu gömlu
Vigdís Ingvadóttir.

Við erum nokkrar konur, fyrrum skólasystur, ættaðar úr Mýrdal sem hafa ákveðið að hefja söfnun fyrir legsteini á leiði förukonunnar Vigdísar Ingvadóttur, eða Viggu gömlu eins og hún var oftast kölluð.

Vigga fæddist árið 1864 að Norður-Hvammi í Mýrdal. Hennar förukonuferill hófst þegar hún var á barnsaldri og stóð alla hennar löngu ævi. Vigga var afar sérstæð jafnt í útliti sem og öllu hátterni. Hún skreytti fötin sín með tölum og alls konar glingri sem á vegi hennar varð. Vigga var vel gefin kona, minnug og orðheppin, en vanræksla í æsku er talin hafa átt sinn þátt í að móta hana til þess sérstaka lífs sem hún lifði. Hún lést háöldruð árið 1957 að Norður-Hvoli í Mýrdal en þar átti hún heima síðustu þrjátíu ár ævinnar.

Viggu hefur víða verið minnst. Þórður Tómasson í Skógum segir frá henni í bókinni Gestir og grónar götur sem kom út árið 2000, Eyþór Ólafsson frá Skeiðflöt tók saman æviágrip um hana og birti í jólablaði Fréttabúa árið 1988. Stefán Hannesson kennari í Litla Hvammi orti erfiljóð um Viggu sem birtist í bók Stefáns Á valdi vorsins sem kom út árið 1965. Einnig hélt Jóna Sigríður Jónsdóttir myndlistarsýningu um Viggu í Byggðasafninu í Skógum árið 2011.

Á þessu má sjá að Vigga var og er ofarlega í huga þeirra sem kynntust henni í lifanda lífi. Hún var þrátt fyrir fátækt og umkomuleysi einn eftirminnilegasti Mýrdælingur sem uppi var á síðustu öld og saga hennar er samofin sögu Mýrdalsins.

Leiðið hennar Viggu er í Skeiðflatarkirkjugarði. Við vonum að Mýrdælingar og allir þeir sem muna eftir gömlu förukonunni eða hafa heyrt hennar getið, leggi okkur lið við að safna fyrir verðugum minnisvarða á leiðið hennar.

Reikningur sem leggja má inn á er: 0111-05-571760, kt. 300843-4179. Upplýsingar veitir Jóna Sigríður Jónsdóttir í síma 892 3015 eða jonasj@simnet.is.