2.3 C
Selfoss

John Snorri verður á opnum fundi í Hveragerði

Vinsælast

John Snorri Sigurjónsson kemur í heimsókn til Lionsklúbbs Hveragerðis á opinn fund mánudaginn 6. nóvember nk. á Hótel Örk kl. 19:30 og segir frá ævintýrum sínum. Fundurinn er kostaður af Lionsklúbbi Hveragerðis og er öllum opinn. Á fundinum verður óskað eftir fjárframlögum frá fundargestum til styrktar Kvennadeild Landspítalans.

John Snorri er ofurhugi sem hefur verið ein mesta fjallageit okkar Íslendinga um þó nokkurt skeið en ekki verið mikið í fjölmiðlum. John Snorri hefur klifið nokkra af hærri tindum heims en setti markið á toppinn á K2 í sumar. Hann varð svo fyrsti Íslendingurinn til að klífa fjallið, sem er 8.611 metra hátt og er talið eitt af erfiðustu fjöllum jarðar af klífa.

John Snorri er fimm barna faðir. Hann hefur heimsótt Kvennadeild Landspítalans oftar en margir og notið þeirrar einstöku þjónustu sem þar er veitt. Þegar John Snorri ákvað að láta gamlan draum rætast og ganga upp K2 langaði hann að láta gott af sér leiða í leiðinni. Eitt leiddi af öðru og John Snorri fór af stað í leiðangurinn mikla merktur Líf Styrktarfélagi í bak og fyrir.

Líf styrktarfélag Kvennadeildar Landspítalans hefur þann tilgang að bæta aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu, sem og kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma. Félagið vinnur að líknar- og mannúðamálum í þágu fjölskyldna. Líf er stofnað með langtímaverkefni í huga. Félagið aflar fjár með félagsgjöldum sem greidd eru ár hvert og einnig stendur það að margvíslegum fjáröflunum. Að félaginu standa núverandi og fyrrverandi starfsmenn kvennadeildar ásamt breiðum hópi fólks víðs vegar úr þjóðfélaginu. Þó skírskotun sé augljós til kvenna vegna kvennadeildar, er lögð áhersla á að félagið er fyrir karla og konur enda njóta karlar einnig þjónustu kvennadeildar þar sem börn þeirra fæðast og margir dvelja einnig þar á meðan fæðingu/sængurlegu stendur.

Nýjar fréttir