10 C
Selfoss

Góð þátttaka í beinþéttnimælingu SSK og KÍ

Vinsælast

Mikill fjöldi karla og kvenna þáðu boð Sambands sunnlenskra kvenna og Kvenfélagasambands Íslands um beinþéttnimælingu í Selinu á Selfossi laugardaginn 21. október sl. Þessa mælingu og fræðslu um beinþynningu héldu samböndin í samvinnu við Halldóru Björnsdóttur hjá Beinvernd. MS lagði til kalkríkar veitingar og konur úr Kvenfélagi Selfoss sáu um framreiðslu þeirra. Alls mættu rúmlega hundrað manns í Selið þennan tíma sem opið var og gerði fólk góðan róm að þessu framtaki sambandanna.

Beinþynning er vaxandi vandamál í heiminum. Ekki eru mörg ár síðan beinþynning var skilgreind sem sjúkdómur og farið var að huga alvarlega að forvörnum gegn henni. Það kallast beinþynning þegar kalkið í beinunum minnkar svo mikið, að þau þola ekki lengur eðlilegt álag. Sjúkdómurinn hefur stundum verið kallaður „Hinn þögli vágestur“ þar sem hann læðist að fórnarlömbum sínum og getur valdið beinbrotum af litlu eða engu tilefni.

Hlustað af kostgæfni á fróðlegan fyrirlestur hjá Halldóru Björnsdóttur.

Landssamtökin Beinvernd voru stofnuð árið 1997 og fagna þau 20 ára afmæli sínu í ár. Aðalhvatamaður að stofnun þeirra var Ólafur Ólafsson þáverandi landlæknir. Markmið þeirra er að vekja athygli almennings og stjórnvalda á beinþynningu sem heilsufarsvandamáli, ásamt því að efla fræðslu til almennings og heilbrigðisstétta um beinþynningu og varnir gegn henni. Mikinn fróðleik um beinvernd og beinþynningu er hægt að finna á heimasíðu www.beinvernd.is. Einkunnarorð afmælisársins er „Betra er heilt en vel gróið“.

Nýjar fréttir