Nú eru kosningar til Alþingis framundan og ég hef ákveðið að bjóða fram krafta mína í starf fyrir land og þjóð.
Það eru fjölmörg verkefni sem þarf að sinna eftir kosningar og ég er fullur eldmóðs.
Ótalmarga hluti mætti nefna sem vinna ætti að hér á Suðurlandi og á yfirferð minni um kjördæmið er í mörg horn að líta.
Eitt það mikilvægasta er að eftir bankahrunið og jafnvel fyrr hafa fjárveitingar til stofnana á Suðurlandi sem og víðar dregist saman miðað við umfang og verkefni. Eftir að þjóðarskútan rétti við hefur tekið of langan tíma að fá þetta leiðrétt. Hér vil ég nefna Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Fjölbrautaskólann og Lögregluna á Suðurlandi.
Það er staðreynd að í landinu eru allt of fáir lögreglumenn og hefur fjöldi þeirra alls ekki verið í takt við íbúaþróun eða fjölgun ferðamanna. Flokkur fólksins vill leiðrétta þennan skort á lögreglumönnum og fjölga þeim duglega svo öryggi og öryggistilfinning borgaranna sé eins og best getur verið.
Frítekjumarkið – stolnar fjaðrir!
Í kosningabaráttunni hafa hinir flokkarnir stokkið á okkar vagn og boðað stefnu sem við höfum barist fyrir. Eitt dæmi er frítekjumarkið. Frítekjumark ellilífeyris var ákveðið 25 þús. kr. með breytingu á lögum um almannatryggingar sem tók gildi 1. jan. sl.
Fyrir atbeina hagsmunasamtaka aldraðra, varð að ráði að setja frítekjumark sem gilti um allar tekjur. Þá ákvað stjórnarmeirihlutinn að ellilífeyrisþegar mættu hafa 25.000 kr. á mánuði í tekjur án þess að það hefði áhrif á ellilífeyri til lækkunar. Minnihlutinn, þar á meðal píratar, studdu þessa tillögu meirihlutans.
Flokkur fólksins hefur tekið afstöðu gegn þessu naumt skammtaða frítekjumarki allt frá upphafi. Fólk lifir æ lengur og býr margt við ágæta heilsu og starfsorku. Með útilokun þessa aldurshóps frá vinnumarkaði er litið framhjá jákvæðum efnahagslegum, félagslegum og lýðheilsufræðilegum sjónarmiðum.
Nú keppast aðrir flokkar hver sem betur getur að boða hækkun frítekjumarksins, hversu trúverðugt sem það nú er að ætla að breyta sínu eigin hugarfóstri. Einungis Flokkur fólksins hefur allan tímann boðið eldri borgurum þessa lands að vinna með okkur hinum. Frítekjumarkið er eitt af mörgum málum sem Flokkur fólksins ætlar að afgreiða fái hann brautargengi í kosningunum.
Ég held að það sé mikil þörf á að frambjóðendur Flokks fólksins komist í ræðustól Alþingis, þessum mikilvægasta ræðustól landsins og láti í sér heyra varðandi þau þjóðþrifamál sem flokkurinn berst fyrir, X F.
Karl Gauti Hjaltason, oddviti Flokks fólksins í Suðurkjördæmi.