6.1 C
Selfoss
Home Fréttir Klessti á Pylsuvagninn undir áhrifum lyfja

Klessti á Pylsuvagninn undir áhrifum lyfja

0
Klessti á Pylsuvagninn undir áhrifum lyfja
Pylsuvagninn við brúarsporðinn á Selfossi. Mynd: ÖG.

Þrír ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið ölvaðir í liðinni viku í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi. Einn þeirra, kona á fertugsaldri, er auk þess grunuð um að hafa verið undir áhrifum lyfja en ökuferð hennar endaði á Pylsuvagninum á Selfossi að kvöldi föstudagsins síðasta. Ekki urðu slys á fólki. Önnur kona, erlendur ferðamaður, var stöðvuð á Hellu og lauk máli sínu degi síðar með því að gangast undir sektargerð og sviptingu ökuréttar. Blóðsýni hennar var sett í flýtimeðferð hjá Rannsóknarstöfu Háskólans svo unnt væri að ljúka málinu áður en kærða færi af landi brott. Þriðji aðilinn, erlendur karlmaður búsettur á Íslandi, var einnig stöðvaður á Hellu sama kvöld.

Í vikunni voru 26 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt, fimm þeirra í nágreni Víkur, átta í nágrenni Kirkjubæjarklausturs, sjö í lágsveitum Árnessýslu og tveir í uppsveitum. Þrír voru kærðir í Rangárþingi ytra. Sjá má tölur eins og 148 km/klst og 137 km/klst í hópi þessara 26 aðila og öllum má vera ljóst mikilvægi þess að ná böndum um slíka hegðun ökumanna í umferðinni.

Úr dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.