6.7 C
Selfoss

Eldfjallamiðstöðin Lava formlega vígð

Vinsælast

Eldfjallamiðstöðin Lava á Hvolsvelli var formlega vígð á fimmtudaginn í liðinni viku. Ásbjörn Björgvinsson framkvæmdastjóri Lava stýrði athöfninni. Við upphaf hennar söng barnakór Hvolsskóla nokkur lög undir stjórn Ingibjargar Erlingsdóttur.

Barnakór Hvolsskóla. Mynd: ÖG.

Í ávarpi sínu þakkaði Ásbjörn helstu samstarfsaðilum og þá sérstaklega Sveitarfélaginu Rangárþingi eystra fyrir ánægjulegt samstarf. Hann sagði einnig frá helstu aðilum sem komu að framkvæmdinni en það voru m.a. Jarðfræðistofnun Íslands og Veðurstofa Íslands og Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur. Einnig arkitektar hjá Basalt og margmiðlunarfyrirtækið Gagarín, auk fjölda annara aðila. Byggingaraðili var Þingvangur ehf. Stærsti fjármögnunaraðili verkefnisins er Iceland Tourism Fund.

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, flutti einnig ávarp og færði eldfjallamiðstöðinni gjöf í tilefni vígslunnar.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra klippir á borða við vígslu eldfjallamiðstöðvarinnar á Hvolsvelli. Mynd: ÖG.

Þá flutti Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ávarp og klippti á borða. Á eftir nutu gestir glæsilegra veitinga hjá Kötlu Mathúsi.

Nýjar fréttir