11.7 C
Selfoss
Home Fréttir Ég sé alveg hellings möguleika með þessa stráka

Ég sé alveg hellings möguleika með þessa stráka

0
Ég sé alveg hellings möguleika með þessa stráka
Patrekur Jóhannesson þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta. Mynd: JÁE.

Patrekur Jóhannesson kom til starfa sem þjálfari karlaliðs Sel­foss í handbolta síðasta vor. Hann gerði tveggja ára samning auk þess sem hann mun sjá um starf handboltaakademíunnar. Aðstoðarmenn hans með liðið eru Grímur Hergeirsson og Þórir Ólafsson. Jón Birgir Guð­munds­son sjúkraþjálfari er svo fjórði mað­ur­inn í áhöfn­inni. Rúnar Hjálmarsson er styrktar­þjálfari og sér um lyftingarnar undir hand­leiðslu Vésteins Hafsteinssonar.

Sami hópur og í fyrra
Selfossliðið er að mestu leyti skipað sömu leikmönnum og í fyrra. Einar Ólafur Vilmundarson markmaður sem kom til Sel­foss frá Haukum í byrjun nóvember í fyrra er þó farinn í nám erlendis og verður ekki með liðinu í vetur. Að öðru leyti er um sama hóp að ræða. Guðjón Ágústsson, hægri hornamaður, er meiddur og verður frá eitthvað áfram. Andri Már Sveinsson sleit krossbönd í fyrra og verður því ekki með, alla vega ekki fyrstu mánuðina. Árni Steinn Steinþórsson er enn að glíma við meiðsli og er óvíst hvenær hann kemur til baka.
Sölvi Ólafsson markmaður er kominn til baka en hann lék með Aftureldingu fyrri part síðasta tímabils og skipti svo yfir í Fram síðari hlutann. Sölvi er heimamaður og uppalinn Selfyssingur. Jafnframt kom til liðs við Selfoss annar markmaður eða hinn 19 ára Anadin Suljaković. Hann er upprunalega Bosníumaður en með ríkisfang frá Katar. Svo kom Atli Ævar Ingólfsson frá Sävehof í Svíþjóð. Hann er búinn að vera í Svíþjóð og Danmörku í fimm ár og var m.a. tvisvar valinn besti línumaðurinn í sænsku deildinni. Örn Östen­berg Vésteinsson er einnig kominn til liðs við liðið. Hann er 19 ára unglinga­lands­liðsmaður Íslands og kemur frá Krist­ians­stad í Svíþjóð. Margir líta á hann sem heimamann því hann er sonur Vé­steins Hafsteinssonar. Nokkrir strákar eru auk þess að koma upp í meistaraflokk. Þeir fengu aðeins að spreyta sig í fyrra en koma nú sterkari inn í hópinn. Þar má nefna Guðjón Baldur Ómarsson horna­mann, sem kemur úr akademíunni, Hauk­ur Þrastarson sem spilaði nokkra leiki með meistarafokki í fyrra og Richard Sæþór Sig­urðsson, en hann kom til liðsins í vor eft­ir að hafa einbeitt sér að fótbolta í fjögur ár.

Góð æfingaferð til Álaborgar
Patrekur var spurður hvernig undirbúning­ur liðsins fyrir þetta keppnistímabil hefur verið. „Liðið kláraði mjög snemma eftir deildarkeppnina í fyrra eftir að hafa spilað tvo leiki í úrslitunum. Eftir það fóru menn bara sjálfir í lyftingar og frí eða smá end­ur­næringu. Síðan byrjuðum við um miðj­an júlí að æfa með þá stráka sem voru hér. Haukur, Elvar, Teitur og Örn voru í lands­liðs­verkefnum en við hinir byrjuðum bara að æfa. Við fórum svo í æfingaferð til Ála­borg­ar þar sem við vorum í viku. Það var mjög góð ferð. Við höfðum góðan tíma og mér gafst færi á að kynnast strákunum. Síð­an er þetta búið að vera nokkuð hefð­bundið, spilaðir æfingaleikir og bara æft vel.“

Getum unnið hvaða lið sem er
Patrekur var spurður hvernig liðið væri í stakk búið gagnvart Íslandsmótinu núna.
„Liðin í Olís-deildinni eru töluvert sterkari en þau voru í fyrra þannig að deildin er sterk­ari. Maður sér það bara á þeim leik­mönnum sem hafa komið heim. Svo er nýtt fyrirkomulag og fleiri lið í deildinni. Ég held að við getum gert góða hluti en maður þarf að vera þolinmóður. Auðvitað snýst þetta líka um að hafa alla heila og allt það en ég hef trú á þessum strákum. Ég er mjög ánægður með hvernig þeir æfa og hvernig vinnukúltúrinn er hérna. Svo er ég mjög heppinn með allt þetta góða þjálfarateymi í kringum mig. Ég sé alveg hellings möguleika með þessa stráka og ekki bara þá sem eru ungir. Ég er náttúru­lega í akademíunni líka og þar eru krakkar líka að koma. Selfoss hefur alltaf verið með fullt af handboltafólki og kannski átt í vandræðum með að halda því hérna. Ég sé mikla möguleika hérna og við getum unnið hvaða lið sem er. En við getum líka átt leiki þar sem við erum ekki eins sterkir. Þannig að það þarf að vinna svolítið í þessum stöðugleika. Við þurfum að sýna það inni á vellinum og safna stigum.“

Þurfa að höndla pressuna
„Auð­vit­að er það mitt markmið þann tíma sem ég er hérna að ná topp árangri, nálgast þessi topplið og berjast þar. Maður veit samt alveg hvernig þetta er. Fyrsta árið í efstu deild í fyrra gekk þannig séð vel og því eru miklar væntingar í ár. En nú þarf svolítið að sanna sig og deildin er sterkari svo að menn þurfa því að höndla pressuna sem því fylgir. Liðið var því miður með lélegasta árangur allra liða á heimavelli síðasta tímabil og við viljum breyta því. Ef við náum að mynda góða stemningu á heimaleikjum er það alveg hægt. Það eru miklir möguleikar og gaman líka.“

Akademíustarfið að skila sér
„Það eru ekki mörg lið sem að státa af því að vera með svona marga heimamenn. Það segir svolítið um það sem er verið að gera hérna á Selfossi í handboltanum. Ég held að akademíustarfið sem Basti hefur gert í gegnum árin, og ég er byrjaður að stýra og vinna við, og aðkoma manna eins Einars Guðmunds og Gísla Felix og fleiri skili sér á endanum. Það er langskemmti­legast að búa til þessa leikmenn, þurfa ekki að kaupa þá,“ segir Patrekur að lokum.