8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Núverandi fjármögnun Ríkisins til HSU dugar ekki til að mæta eftirspurn

Núverandi fjármögnun Ríkisins til HSU dugar ekki til að mæta eftirspurn

0
Núverandi fjármögnun Ríkisins til HSU dugar ekki til að mæta eftirspurn
Frá ársfundi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Mynd: HSU.

Fimmtudaginn 21. september sl. var fyrsti ársfundur sameinaðar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands haldinn hjá HSU á Selfossi. Cecilie B. H. Björgvinsdóttir mannauðsstjóri HSU var fundarstjóri og setti fundinn.

Herdís Gunnarsdóttir forstjóri HSU. Mynd: HSU.

Herdís Gunnarsdóttir forstjóri HSU fór yfir þann góðan árangur sem náðist í rekstri stofnunarinnar frá sameiningu í samhengi við þær áskoranir sem eru í rekstrinum. Fram kom í máli hennar að tekist hefur að byggja upp sterka liðsheild stjórnenda og gengið mjög vel að fá heilbrigðisstarfsmenn til starfa. Við sameininguna varð til 6. stærsta A-hluta stofnun á fjárlögum Ríkisins með um tæplega 4,9 miljarða í ársveltu á árinu 2016.

Ríflega helmingur rekstarfjár fer til heilsugæslu og sjúkraflutninga, um þriðjungur til sjúkrarýma og einn sjötti til reksturs hjúkrunarrýma. Á öðru ári eftir sameininguna, sem var í árslok 2014, var HSU enn að glíma við rekstrar- og skuldavanda eldri stofnanna. Á árinu 2016 HSU þurfi að fara í endurskipulagningu í rekstrinum ásamt því að segja upp 20 störfum en samhliða var geysimikil aukning verkefna. Fjárframlög ársins voru að núvirði í byrjun árs 2016 um 8% undir því sem eldri stofnanir, sem nú tilheyra HSU, fengu samanlagt í fjárframlög fyrir hrun árið 2008. Á því sama tímabili hafa verkefnin hins vegar margfaldast. Sambærilegur vöxtur í eftirspurn eftir þjónustu HSU á sér vart hliðstæðu annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Aldrei fyrr hefur HSU þurft að sinna jafn mörgum verkefnum og árið 2016, og enn vex eftirspurnin eftir þjónustu.

Á ársgrundvelli fjölgaði komum á bráðamóttöku um 16%, sjúkraflutningum um 11%, legudögum í sjúkrarýmum fjölgaði og biðtími eftir hjúkrunarrýmum og eftirspurn eftir heimahjúkrun óx. Forstjóri lagði áherslu á að áfram munu vera blikur á lofti í rekstri HSU ef krafa verður um óbreytta grunnþjónustu sem ekki er fjármögnuð í samræmi við vaxandi álag. Benti hún á að núverandi fjármögnun Ríkisins til HSU dugar ekki til að mæta eftirspurn og þörf fyrir þjónustu og að heilbrigðisráðherra og Velferðarráðuneyti hafi verið gert viðvart um að ekki sé hægt að halda áfram óbreyttum rekstri í heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi með núverandi fjármögnun. Að óbreyttu þarf að grípa til sársaukafullra aðgerða í rekstri og þjónustu í byrjun árs 2018.

Björn Steinar Pálmason framkvæmdastjóri fjármála. Mynd: HSU.

Björn Steinar Pálmason framkvæmdastjóri fjármála fór yfir ársreikning HSU og þann góða árangur sem náðst hefur að koma stofnunni úr afar slæmri rekstrarlegri stöðu í jafnvægi, en ársreikningur síðasta árs sýndi í fyrsta sinn jákvæða stöðu og að baki þeim ávinningi liggur þrotlaus vinna stjórnar HSU. Fjármögnun Ríkisins til tækjakaupa er fjarri því að standa undir nauðsynlegri endurnýjun tækja til grunn heilbrigðiþjónustu. Jafnframt dró hann fram þá grundvallarstaðreynd að núverandi útfærsla á fjármögnun opinberra heilbrigðistofnanna væri ógagnsæ og í engu samræmi við þjónustuþarfir íbúa og afköst stofnunarinnar.

Anna María Snorradóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar. Mynd: HSU.

Anna María Snorradóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar talaði um sýn og stefnu varðandi faglega þáttinn í rekstri stofnunarinnar. Hún fór yfir uppbyggingu starfsins, ávinning af sameiningu og breyttu fyrirkomulagi við ýmsa þætti í rekstrinum og öll þau tækifæri sem í sjónmáli eru til betri þjónustu fyrir íbúa svæðisins. Hún fór yfir nýjungar í þjónustu við sjúklinga á göngudeild og tækifæri fyrir bætt aðgengi að þjónustu með fjarheilbrigðisþjónustubúnaði.

Birgir Jakobsson landlæknir. Mynd: HSU.

Birgir Jakobsson landlæknir tók síðastur til máls og kom inn á hvað gott faglegt starf væri unnið á HSU og hvað stjórnendur leggðu sig fram um að vanda vel til undirbúningsvinnu við að mynda sterka framtíðarsýn fyrir heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi. Landlæknir fór yfir hvaða áskoranir þarf að leysa í heilbrigðismálum á Íslandi og hvatti til þess að framkvæmdastjórn opinberrar heilbrigðisþjónustu á Íslandi yrði skipuð af heilbrigðisráðherra með forstjóra stofnanna til stefnumótunar fyrir nánustu framtíð. Hann hrósaði stjórnendum HSU fyrir að hafa unnið grettistak við að ráða fram úr umfangsmiklum skulda- og rekstarvanda eldri stofnanna HSU og tók undir orð forstjóra með að nauðsynlegt væri að fjármagna heilbrigðisþjónustuna eftir framleiðni og afköstum.

Í lok fundar var boðið uppá léttar veitingar. Fundurinn var öllum opin og þátttaka góð. Fundinn sóttu alþingismenn, sveitarstjórnarmenn og starfsfólk. Almenn ánægja er með þennan fyrsta ársfund HSU og þótti hann heppnast vel og erindin fróðleg og góð.