0 C
Selfoss
Home Fréttir Ég var bara kríli þegar ég lærði að lesa á hvolfi

Ég var bara kríli þegar ég lærði að lesa á hvolfi

0
Ég var bara kríli þegar ég lærði að lesa á hvolfi
Ingibjörg Þorleifsdóttir.

Ingibjörg Þorleifsdóttir, lestrarhestur Dagskrárinnar, ólst að mestu upp á Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði hjá foreldrum, systkinum og fósturbræðrum. Hún er grunnskólakennari með framhaldsnám í sérkennslufræðum og hefur kennt í fjöldamörg ár og sérhæft sig í lestri og læsi. Hún bjó á Ísafirði í fimmtán ár og kenndi þar í Gagnfræðaskólanum í þrjú ár, brá sér til Keflavíkur og kenndi eitt árið í Gaggó, dreif sig síðan aftur vestur og kenndi lengi í Hnífsdal. Að því loknu starfaði hún við kennslu á Blönduósi í sex ár með smá hléi þegar hún brá sér í Flóann og kenndi í Þingborg í tvö ár. Síðastliðin átján ár hefur hún búið og kennt flest árin í Þorlákshöfn en vann um tíma hjá Menntamálastofnun við læsisverkefni. Núna starfar Ingibjörg við Grunnskólann í Þorlákshöfn þar sem hún er verkefnastjóri í læsi.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er alltaf með margar bækur í takinu og núna er ég að ljúka við bækurnar hennar Jóhönnu Kristjónsdóttur Svarthvíta daga og Perlur og steina með smá sveiflu yfir í Dagbók frá Diafani eftir Jökul heitinn Jakobsson sem tengist Perlum og steinum. Sú bók sem lokar kannski þessum ævisöguköflum Jóhönnu heitinnar heitir Kæri Keith og er núna við höndina. Til hliðar við þetta er ég að lesa Engla alheimsins á færeysku en þar heita þeir Alheimsins einglar. Mér til hrellingar uppgötvaði ég að færeyskan var mér ekki lengur töm þegar ég skrapp þangað í sumar. Ég ákvað að bæta úr því og les nokkrar blaðsíður upphátt á hverjum degi svona fyrir sjálfa mig. Yngri börnin mín eru hálffæreysk og einu sinni var færeyskan aðaltungumálið á heimili okkar. Næsta bók sem ég ætla að lesa kallast Ógnir minninganna og er eftir Loung Ung sem er frá Kambódíu en eldri dóttir mín benti mér á hana.

Áttu þér áhugaverða lestrarminningu?

Ég var bara kríli þegar ég varð læs. Eldri systir mín var að læra að lesa og ég sat við borðið á móti henni og fylgdist grannt með þannig að ég lærði að lesa á hvolfi. Enn í dag er mér sama hvernig bækur snúa þegar ég les. Ein af mínum fyrstu minningum er þegar ég fékk að taka lestrarpróf á fimmta aldursári. Pabbi var svo montinn af mér og kennarinn sem var af gamla skólanum prófaði mig heima á Kolfreyjustað. Ég man enn hvað ég varð sárreið þegar ég fékk einkunnablaðið en ég fékk 3,2. Eldri systir mín fékk nefnilega 3,3 og sagði kennarinn að ég mætti ekki vera hærri en hún. Einkunnablaðið á ég enn.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég varð strax alæta á bækur og las meðal annars þjóðsögur og fleira skemmtilegt þegar ég var lítil. Bækur Anne-Cath. Vestly voru í miklu uppáhaldi þó sérstaklega bækurnar um Pabba, mömmu, börn og bíl og Átta börn og ömmu þeirra í skóginum og þá bókaröð alla. Lengi vel kíkti ég í þær mér til skemmtunar og las þær gjarnan fyrir nemendur mína meðan ég var umsjónarkennari. Ung skemmti ég mér vel yfir skáldsögum Péturs Gunnarssona og hló mig máttlausa og las þær að sjálfsögðu fyrir nemendur mína. Núna er ég að hlusta á bækur eftir höfunda sem kalla sig Börjlind og eru alveg ágætir. Persónurnar í bókunum eru skemmtilega ólíkar, söguþráður hraður og það er auðvelt að halda þræði þó ég hlusti ekki daglega.

Getur þú lýst lestrarvenjum þínum?

Ég kenndi nemendum mínum oft hraðlestur og lesskilning og eitt sinn á Blönduósi vildu krakkarnir að ég tæki þátt í námskeiðinu. Ég er fluglæs á íslensku og taldi mig ekki geta orðið hraðlæsari á henni svo ég hafði samband við bókaverðina í Norræna húsinu og sagði að mig langaði að verða læs á sænsku. Þeir sendu mér bókapakka og þar voru meðal annars bækur um Wallander eftir Henning Mankell. Þó ég væri vel læs á norsku og dönsku botnaði ég til að byrja með lítið í þessari sænsku sem ég las. Þegar ég var komin aftur í miðja bók þá opnaðist einhver gátt og allt í einu skildi ég sænskuna. Ég þarf þó að gæta mín á að glutra henni ekki niður svo ég hlusta á sænskar glæpasögur þegar ég er á ferðinni til Reykjavíkur eða á Selfoss.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Ef ég myndi skrifa eitthvað sjálf yrðu það eflaust sögulegar skáldsögur um formæður mínar sem bjuggu suður í Garði.