11.7 C
Selfoss

Skemmtilegt vetrarstarf hjá Karlakór Hveragerðis

Vinsælast

Karlakór Hveragerðis er um þessar mundir að hefja sitt annað starfsár og vill gjarnan bæta við sig nýjum félögum. Framundan er skemmtilegt vetrarstarf. Má þar nefna að til að mynda koma félagar í Karlakór frá Akranesi í heimsókn í október, haldið verður skemmtikvöld og tónleikar í nóvember ásamt góðum (leyni)gestum og jólaglögg og hlaðborð í desember. Í febrúar er fyrirhugað „kjammakvöld“, síðan æfingabúðir og árshátíð kórsins í mars. Vortónleikar verða í apríl og vorferð í maí. Þar fyrir utan verða ýmsar óvæntar uppákomur og skemmtanir í vetur.

Í tilkynningu frá kórnum segir að berlega hafi komið í ljós á síðasta starfsári hvílíkur mannauður búi í kórnum og að í honum séu miklir gleðimenn og snillingar upp til hópa sem leika á hljóðfæri, henda í rándýrar vísur og fara létt með að hlaða í heimsklassa skemmtiatriði án mikillar fyrirhafnar. Því sé hér um skemmtilegan og bráðhollan félagsskap að ræða sem bara hressi, kæti og bæti. Hafi einhverjir áhuga á líflegum söng og úrvals félagsskap er um að gera að skella sér í kórinn. Lagaval og efnistök eru fjölbreytt og grípandi.

Æfingar hefjast miðvikudaginn 20. september klukkan 19:30 og stendur til 21:30. Æfingar fara fram í Vesturási Hverahlíð gegnt Hveragerðiskirkju. Velkomið er að mæta bara beint á æfinguna eða senda póst á söngstjóra og/eða formann kórsins. Söngstjóri: orlyguratli@simnet.is, formaður: hp-synir@eldhorn.is.

Nýjar fréttir