-5 C
Selfoss
Home Fréttir Batasetur Suðurlands tveggja ára

Batasetur Suðurlands tveggja ára

0
Batasetur Suðurlands tveggja ára

Um þessar mundir er geðræktarmiðstöðin Batasetur Suðurlands tveggja ára. Fyrir þá sem ekki vita þá er Batasetrið grasrótarsamtök fyrir fólk sem á við eða hefur átt við einhverskonar vanda að etja. Hugmyndin á bak við Batasetrið er að efla og styrkja fólk á jafningjagrundvelli með hugmyndafræði valdeflingar. Notendum Batasetursins er í sjálfsvald sett hversu mikinn þátt þeir taka í starfseminni, stundum er gott að geta hlustað en öðrum stundum vill fólk ef til vill vera virkir þátttakendur.

Eitt af lykilhlutverkum Batasetursins er að rjúfa félagslega einangrun fólks. Félagsleg einangrun er oft fylgifiskur fólks sem hefur einhverra hluta vegna flosnað upp úr námi eða dottið út af atvinnumarkaði. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á neikvæð áhrif félagslegrar einangrunar á fólk og batalíkur þess. Annað lykilhlutverk Batasetursins er að færa fólki verkfæri til að vinna með sjálft sig og veita því athvarf til að vinna í sínum málum.

Starfsemi Batasetursins byggir á jafningjagrundvelli og dagskrá Batasetursins er að miklu leyti mótuð af notendum. Reglulega eru haldnir notendafundir þar sem notendur geta haft áhrif á starfsemi Batasetursins. Í dag má finna í Batasetrinu ritsmiðju, málun, gönguhóp og sjálfshjálparhóp. Ýmislegt fleira er á döfinni og þar má helst nefna aðstandendafundina. Aðstandendur eiga það til að gleymast þegar fjölskyldumeðlimir veikjast. Mikilvægt er að aðstandendur fái stuðning því oft fylgir því mikið álag þegar fjölskyldumeðlimur er veikur. Oft getur samskipti við aðra aðstandendur gert gæfumuninn.

Starfsemi Batasetursins hefur eflst mikið frá fyrstu opnun. Í upphafi var aðeins ein opnun í viku en fljótlega var komin þörf fyrir meiri opnun og því var bætt við öðrum og svo þriðja deginum. Þannig að í dag er Batasetrið opið á mánudögum og miðvikudögum frá klukkan 10:00 til 14:00 og á föstudögum frá 9:00 til 16:00. Að sama skapi hefur heimsóknum í Batasetrið fjölgað jafnt og þétt og þess má geta að á þessu ári hafa verið ríflega 550 heimsóknir í Batasetrið. Starf Batasetursins hefur að mestu leyti farið fram í sjálfboðavinnu og starfssemin er að öllu leyti rekin af styrkjum. Án þeirra væri starfssemi Batasetursins ekki möguleg. Við í Batasetrinu erum óendanlega þakklát fyrir alla þá styrki og stuðning sem Batasetrið hefur hlotið á undanförnum tveimur árum.

Við hvetjum alla sem eru forvitnir að kynna sér starfssemi Batasetursins frekar á Facebook-síðu Bataseturs, www.facebook.com/Batasetur.