7.8 C
Selfoss
Home Fréttir Námskeið í skapandi skrifum

Námskeið í skapandi skrifum

0
Námskeið í skapandi skrifum
Írski rithöfundurinn Elizabeth Rose Murray.

Bókabæirnir austanfjalls og Gullkistan á Laugarvatni bjóða upp á námskeið í skapandi skrifum á morgun laugardaginn 26. ágúst. Viðfangsefni og aðferðir snúast um það að skrifa fyrir börn. Um er að ræða tvö námskeið sama daginn og hefst það fyrra klukkan 10 um morguninn í Bókasafni Árborgar og stendur til klukkan 13. Það námskeið er ætlað fyrir fullorðna. Seinna námskeiðið hefst í bókasafninu í Hveragerði klukkan 14 og er ætlað fyrir börn á aldrinum 8 til 12 ára og stendur til klukkan 16. Námskeiðin eru styrkt af uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Leiðbeinandi er írski rithöfundurinn E. R. Murray eða Elizabeth Rose Murray sem dvelur nú í híbýlum Gullkistunnar á Laugarvatni. Hún skrifar jöfnum höndum ljóð og smáar sögur sem birst hafa víða en leggur þó höfuðáherslu á að skrifa fyrir börn og unglinga. Fyrsta unglingasaga hennar kom út árið 2016 og heitir Karamelluhjartað. Saga hennar Lærdómshjartað sem er skrifuð fyrir börn á aldrinum 10 til 12 ára var tilnefnd til írsku barnabókaverðlaunanna árið 2017. Á Gullkistunni leggur Elizabeth lokahönd á nýjustu skáldsögu sína fyrir unglinga sem hún kallar The Book of Revenge eða Hefndarbókin. Elisabeth heldur úti kennslu í skapandi skrifum á Netinu í gegnum Inkwell Writers and Big Smoke Writing Factory.

Námskeiðin fara fram á skýrri og einfaldri ensku og verða þýðendur til taks og snara orðum og hugtökum jafnóðum yfir á íslensku. Skráning er hafin og eru áhugasamir beðnir um að skrá sig sem allra fyrst hjá umsjónarmanni námskeiðanna Jóni Özuri Snorrasyni á netfangið jonozur@gmail.com