1.9 C
Selfoss

Hafnardagar í Þorlákshöfn

Vinsælast

Heilmikið verður um að vera í Þorlákshöfn á Hafnardögum. Þeir hófust í gær og standa til 12. ágúst. Þar gera bæjarbúar sér glaðan dag með skemmtilegum viðburðum. Dagskráin er stórglæsileg fyrir unga sem aldna.

Í dag verður frábær dagskrá fyrir ungmenni við Grunnskólann í Þorlákshöfn. Þar verður sett upp sápurennibraut og keppt í sápufótbolta. Á Níunni (Egilsbraut 9), félagsheimili aldraðra, verður grill og eru allir velkomnir með sinn mat til að skella á grillið. Eftir matinn heldur gleðin áfram á stórskemmtilegu harmonikkuballi. Klukkan 22:00 er síðan kósýstund í sundlauginni þar sem hljómsveitin Rökkva mun leika ljúfa tóna.

Á morgun föstudag hefst dagskrá með skrúðgöngu úr hverfunum og leiðir Lúðrasveit Þorlákshafnar hana inn í skrúðgarðinn. Þar hefst dagskrá sem Amma Dídí mun kynna. Jón Jónsson syngur og Hlynur Ben stýrir brekkusöng við varðeld. Dagskránni lýkur með flugeldasýningu. Hægt er að rölta yfir í ráðhús Þorlákshafnar þar sem Jarl Sigurgeirsson syngur og spilar fyrir gesti í Lúðrasveittu partýi. Aðgangseyrir á ballið er 1.500 kr.

Á laugardeginum hefst dagskrá kl. 14.00 í skrúðgarði með afhendingu umhverfisverðlauna. Villi og Sveppi skemmta og leikrit fyrir alla fjölskylduna í flutningi Leikfélags Ölfuss verður frumflutt. Ýmislegt fleira verður í gangi svo sem streetballmót, handverksmarkaður, sölubásar, matarvagnar, hoppukastalar, opin hús hjá íbúum, sýningar, kynningar og fleira. Um kvöldið verða að lokum stórtónleikar með Amabadama í Reiðhöll Guðmundar. Gott er að taka með sér stóla á tónleikana. Frítt er inn á alla viðburði, nema annað sé tekið fram!

Verið velkomin í Þorlákshöfn. Hamingjan er hér!

Nýjar fréttir