9.5 C
Selfoss

Erilsöm helgi að baki

Vinsælast

Núliðin verslunarmannahelgi var erilsöm hjá lögreglunni á Suðurlandi, enda gríðarlegur fjöldi fólks sem sótti Suðurland heim um helgina. Alls voru 252 mál bókuð í dagbók lögreglunnar um helgina, frá 4.–7. ágúst. Þar má helst telja að 15 minniháttar umferðaróhöpp urðu í umdæminu, en lítil slys urðu á fólki. Alls voru 28 ökumenn stöðvaðir undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna og 35 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur.
Þrjár líkamsárásir voru tilkynntar og kærðar til lögreglunnar um helgina og einnig voru tvö kynferðisbrot tilkynnt til lögreglunnar um helgina. Þetta kemur fram á facebook síðu lögreglunar á Suðurlandi.

Björgunarsveitir voru kallaðar út á laugardag vegna vélarvana báts skammt frá Þjórsárósum. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð einnig til og gekk björgunin vel. Á sama tíma varð sjóþota eldsneytislaus og missti samferðafólk sjónar af henni um tíma, en ökumaður og þotan fundust skömmu síðar heilu á höldnu og voru aðstoðuð í land.
Björgunarsveitir voru einnig kallaðar út á sunnudagsmorgun til leitar að einstaklingi sem hafði farið ölvaður í göngu og skilaði sér ekki til baka. Hann fannst heilu og höldnu skömmu síðar.

Töluverður mannfjöldi safnaðist saman á tjaldstæðinu á Flúðum á fjölskylduskemmtun sem þar fór fram. Mikið ónæði varð á unglingatjaldstæðinu þar og þurfti lögregla margsinnis að hafa afskipti af ungmennum þar. Föstudags- og laugardagskvöld voru erilsöm og þung í verkefnum fyrir lögregluna þar sem mikil ölvun var á svæðinu, en sunnudagskvöldið var rólegt þar sem stór hluti unga fólksins hafið farið heim á sunnudeginum.

Herjólfur hóf svo siglingar um kl. 02 aðfaranótt mánudags og sigldi sleitulaust milli Eyja og Landeyjahafnar fram til kl 23, einnig flutti Akranesið og aðrir smærri bátar fólk milli lands og Eyja allan daginn. Flutningurinn gekk vel og komu á annað þúsund farþegar og nýttu sér þjónustu lögreglunnar um að fá að blása í áfengismæli áður en akstur hófst. Þrátt fyrir það stöðvaði lögreglan 17 ökumenn, sem voru að koma frá Landeyjahöfn, fyrir ölvun við akstur.

Lögreglan er almennt ánægð með helgina, sem gekk vonum framar, þrátt fyrir mikinn eril, fjölda mála og fjölda fólks í umdæminu. Segja má að flest tjaldstæði hafi verið full um helgina, þar sem Suðurlandið skartaði sínu fegursta í sumarblíðunni stærstan hluta helgarinnar.

Nýjar fréttir