9.5 C
Selfoss

Hveragerði verði miðstöð sjálfbærni og umhverfisvitundar

Vinsælast

Síðastliðinn föstudag skrifuðu forsvarsmenn Heilsustofnunar NLFÍ, Hveragerðisbæjar og Landbúnaðarháskólans að Reykjum undir viljayfirlýsingu um Sjálfbært Ísland.

Í yfirlýsingunni kemur fram að aðilar eru sammála um að standa fyrir gerð könnunar á möguleika þess að sett verði á stofn upplýsinga- og fræðslumiðstöð um sjálfbæra þróun og lífræna ræktun í Hveragerði. Verkheitið Sjálfbært Ísland verður vinnuheiti verkefnisins sem hefur þann tilgang að gera Hveragerði og næsta nágrenni að miðstöð sjálfbærni og umhverfisvitundar og að þeirri þekkingu og reynslu verði í framhaldinu miðlað til annarra sveitarfélaga á landinu.

Við vinnuna skal lögð áhersla á atriði úr heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna er snerta m.a. matvæli, lýðheilsu og orku. Í markmiðunum sem samþykkt hafa verið af Ríkisstjórn Íslands eru 17 áhersluatriði og þar er sjálfbær þróun áberandi þáttur. Í kynningu á þátttöku Íslands í markmiðunum segir m.a.: „Við einsetjum okkur að stíga afgerandi skref til breytinga sem nauðsynleg eru í því skyni að koma veröldinni á braut sjálfbærni og auka viðnámsþol hennar.”

Með því skrefi sem stigið er varðandi könnun á möguleikum á upplýsinga- og fræðslumiðstöð um sjálfbæra þróun og lífræna ræktun er komið til móts við þennan ríka vilja ráðamanna til að standast markmiðin. Tilgangurinn er að vista á einum stað á landinu flest það er snertir áætlun hins opinbera um framgang sjálfbærrar þróunar.

Hveragerðisbær hefur stigið eftirtektarverð skref í umhverfismálum og m.a. unnið að markmiðum Staðardagskrár 21. Þá hefur bæjarstjórnin samþykkt metnaðarfulla umhverfisstefnu.

Landbúnaðarháskólinn að Reykjum er einstök stofnun sem þegar hefur á námsskrá lífræna ræktun og er umhverfisvitund þar í hávegum höfð.

Heilsustofnun NLFÍ hefur í áratugi vakið athygli á hollustu matvæla og lífrænni ræktun. Stofnunin byggir endurhæfingu dvalargesta að miklu leyti á hreyfingu, mataræði og að einstaklingurinn beri ábyrgð á eigin heilsu.

Nýjar fréttir