7.8 C
Selfoss
Home Fréttir Langaði að prufa eitthvað nýtt

Langaði að prufa eitthvað nýtt

0
Langaði að prufa eitthvað nýtt
„Hvergerðingar hafa tekið vel á móti okkur,“ segir Óðinn Birgir Árnason fisksali. Mynd: Helena.

„Hvergerðingar hafa tekið vel á móti okkur,“ segir Óðinn B. Árnason fisksali.

Fyrir um ári, eða í lok ágúst 2016, opnuðu Óðinn Birgir Árnason og Íris Erlingsdóttir fiskbúð á besta stað í Hveragerði. „Við opnuðum búðina vegna þess að Óðin langaði að starfa í Hveragerði og vildi einnig spreyta sig á því að starfa sjálfstætt. Ég er frá Selfossi og Óðinn, sem er lærður matreiðslumaður, er frá Hafnarfirði,“ segir Íris, svo kannski má segja að við höfum mæst á miðri leið.

Óðinn segir að þetta hafi verið augljóst, það sárvantaði fiskbúð í Hveragerði og þau hafi bara ákveðið að slá til.

Íris Ósk Erlingsdóttir viktar marineraðan lax, enda vinsæll réttur. Mynd: Helena.

Erum að safna í starfslið

„Það var auðvitað mikil vinna að koma þessu af stað og við fengum mikla hjálp. Við pabbi sáum um smíðavinnuna og mamma málaði,“ segir Óðinn. „Já og mamma mín passaði 2 ára dóttur okkar, Elísabetu Þóru, á meðan við vorum að koma öllu í gang. Við segjum stundum í gamni að það sé hún sem er verkstjórinn okkar, þar sem þarfir barnsins ganga fyrir.“ segir Íris. Þau eiga vona á sínu öðru barni og segja bæði brosandi að nú sé strákur væntanlegur. Miðað við viðtökurnar verðum við að safna í starfslið. segja þau einum rómi.

Á 45 km hraða yfir Hellisheiði

„Þegar við vorum að opna búðina þá seldum við fína bílinn okkar til þess að fjármagna hlut framkvæmdanna. Á meðan að við biðum eftir því að eignast nýjan (gamlan Citróën Berlingo 5 sæta… brúnan), þá fengum við lánaðan ´98 árgerð af Nissan Terrano sem var að gefa upp öndina.

Við þurftum að hlaða rafgeyminn úti í bílskúr á nóttunni, sem var bara gott og blessað.

En þegar að keyptum fiskborðið okkar þá mættum við á honum og það var bara hlegið að okkur.

Þó að borðið sé lítið þá er það samt 2 metrar og glerplata ofan á . Auðvitað æstist ég náttúrulega bara upp við það og við tróðum borðinu og glerinu í Terranoinn og Íris var sett aftur í með því.

Bíllinn var ekki par sáttur og þakkaði okkur fyrir, með því að fara ekki yfir 45 km. á klst. yfir Hellisheiðina, en við runnum þó þokkalega hratt niður Kambana. Og munum við seint gleyma þessu,“ segir Óðinn.

Fish & chips og sushi á föstudögum

„Hvergerðingar hafa tekið okkur afskaplega vel og búðin er í stöðugri þróun. Við byrjuðum að bjóða uppá sushi á föstudögum um áramótin og var því tekið vel. Og nú í maí byrjuðum við að afgreiða Fish & chips í hádeginu og hefur því einnig verið tekið vel.

En við höldum auðvitað alltaf áfram að afgreiða ferskan fisk og fiskrétti.

Síðan tökum við að okkur að laga súpu eða jafnvel sushi eftir pöntunum fyrir saumaklúbba eða lítil matarboð, þetta þróast bara jafnt og þétt,“ segir Óðinn að lokum.

-hs.

Úrval góðra rétta og nóg að gera við afgreiðslustörfin. Mynd: Helena.
Sushi er föstudags réttur ásamt Fish & chips. Mynd: Helena.