11.1 C
Selfoss
Home Fréttir Meðferðarferli fyrir deyjandi sjúklinga

Meðferðarferli fyrir deyjandi sjúklinga

0
Meðferðarferli fyrir deyjandi sjúklinga
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Selfossi. Ljósmynd: ÖG.

Undanfarin ár hefur áhersla verið lögð á að sú umönnun sem dauðvona sjúklingar og aðstandendur þeirra njóta á síðustu dögum lífsins sé hágæðaumönnun.

Þörfin fyrir góða líknar- og lífslokameðferð mun aukast á næstu 20-30 árum, þjóðin er að eldast og fleiri komast á efri ár.

Lífslokameðferð er lokastig líknarmeðferðar, umönnun sjúklinga á síðustu sólahringum lífsins, eftir að búið er að greina að viðkomandi sé deyjandi.

Að setja fram greiningu um að einstaklingur sé deyjandi er oft á tíðum flókið ferli, en þó mjög mikilvægt svo viðkomandi njóti sem sem bestrar umönnunar.

Vorið 2014 var innleitt á hjúkrunarheimilinu Fossheimum og Ljósheimum meðferðarferli fyrir deyjandi sjúklinga, svokallað Liverpool Care Pathway (LCP). LCP leiðbeinir við ákvarðanir um meðferð og umönnun við sjúklinga þegar ljóst er að dregur að lífslokum.

LCP er þróað af sérfræðingum líknarteyma á breskum sjúkrahúsum og byggir á langri reynslu og gagnreyndri þekkingu. Í ferlinu eru ýmis fyrirmæli sem stuðla að bestu mögulegu þjónustu sem veitt er á síðustu klukkustundum eða dögum lífs.

Áhersla meðferðarferlisins beinist fyrst og fremst að því að draga úr einkennum og þjáningu og tryggja að sjúklingur geti dáið með reisn. Öllum íþyngjandi inngripum er hætt og áhersla lögð á að styðja fjölskyldu hans og hjálpa til við sorgarúrvinnslu eftir andlát. Á sama tíma er stefnt að því að auka þekkingu og færni heilbrigðisstétta varðandi umönnun og meðferð á síðustu dögum lífs. Horft er til líkamlegra, sálrænna, félagslegra og andlegra þarfa einstaklingsins, auk þess að veita fjölskyldu viðeigandi upplýsingar og fræðslu.

Læknir tekur ákvörðun um lífslokameðferð ísamráði við hjúkrunarfræðing og aðstandendur einstaklingsins. Áður en sú ákvörðun er tekin, þarf þverfaglega teymið að vera sammála um að ákveðin einkenni séu til staðar sem benda til að einstaklingur sé deyjandi.

Rannsóknir síðustu ára hafa bent til að skráning hafi orðið nákvæmari eftir innleiðingu meðferðarferlisins (LCP) og meðferð einkenna betri. Samt sem áður er áframhaldandi mat á gagnsemi slíkra ferla mikilvæg í nánustu framtíð.

Reynsla af notkun LCP á Fossheimum og Ljósheimum er meðal annars sú að heilbrigðisstarfsmenn hafa öðlast aukna þekkingu og öryggi við meðferð og greiningu einkenna við lífslok. Auk þess sem stuðningur til aðstandenda er markvissari. Meðferðarferlið hefur jafnframt aukið þverfaglega samvinnu allra þeirra er koma að umönnun einstaklingsins.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Sólveig Hrönn Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Fossheimum og Ljósheimum
María Davíðsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Fossheimum og Ljósheimum.