5.6 C
Selfoss

Mannvirkjasjóður KSÍ leggur 15 milljónir í knattspyrnuhús á Selfossi

Vinsælast

Draumur margra knattspyrnuáhugamanna um að á Selfossi rísi yfirbyggt knattspyrnuhús hefur fengið byr í seglin. Um síðustu mánaðamót samþykkti stjórn Mannvirkjasjóðs KSÍ að veita 15 milljónum króna í verkefnið.

„Þetta er búið að vera lengi í pípunum,“ segir Sveinbjörn Másson framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Umf. Selfoss. „Við gerðum alvöru úr þessu í fyrra, skipuðum ákveðinn starfshóp sem skilaði af sér skýrslu í apríl 2016. Þar var farið yfir alla kosti og galla við að reisa yfirbyggt knattspyrnuhús og þörfina líka, en hún er klárlega til staðar. Við kynntum skýrsluna fyrir Ungmennafélaginu í apríl og fórum svo á fund bæjarins í maí og kynntum hana þar. Við fengum jákvæð viðbrögð frá sveitarfélaginu en engin loforð. Síðan skeði svo sem ekki mikið í málinu.“

„Síðastliðið haust fórum við betur í hlutina. Við fórum dýpra í þetta og fengum verkfræðistofuna Verkís í lið með okkur. Þar fór Eiríkur Búason út í öll smáatriði sem þarf í svona framkvæmd. Við skiluðum síðan þeirri skýrslu til sveitarfélagsins í desember sl. Síðan hafa bæst við enn ítarlegri upplýsingar sem við skiluðum einnig til sveitarfélagsins. Við höfum síðan beðið eftir svari.“

Sveinbjörn segir að það taki allir vel í þetta en þetta sé fyrst og fremst spurning um peninga. Þörfin sé klár og verkið komið það langt að það gæti verið tilbúið til útboðs eftir viku hálfan mánuð.

„Við erum með augastað á húsi sem er innflutt frá Finnlandi. Svoleiðis hús eru nú þegar í Hafnarfirði og góð reynsla af þeim. Verkefnið kostar ca. 250 milljónir eins og það er sett upp í dag. Mannvirkjasjóður KSÍ var að samþykkja núna í lok apríl að veita 15 milljónum í verkefnið sem á að útdeilast á árunum 2017 og 2018. Svo núna bíðum við eftir svari frá sveitarfélaginu.“

Húsið er rúmlega 3.000 fermetrar að stærð 69×45 metrar eins og það er á teikningunum í dag. Það er með gervigrasi sem er 60×40 m, sem er eins og þrír handboltavellir. Svo er tartan hlaupabraut í „L“ í húsinu.

„Við teljum raunhæft að þetta myndi duga sem æfingahús fyrir knattspyrnudeildina. Þar yrði einnig hægt að hlaupa 60m spretti og taka æfingar í stökkum og e.t.v. köstum. Þannig að þetta á að gagnast fleirum en bara knattspyrnuiðkendum. Við teljum að þetta muni létta á álagi á íþróttahúsum bæjarins sem eru yfirfull nú þegar.

Við erum búnir að leggja fram tillögur eða nokkrar útfærslur, t.d. að knattspyrnudeildin byggi þetta og bærinn leigi þetta eða þá að þeir byggi þetta og fái 15 milljónirnar frá KSÍ. Þannig að núna er boltinn hjá sveitarstjórninni,“ segir Sveinbjörn.

Nýjar fréttir