4.5 C
Selfoss

Bygging verksmiðju Lýsis í Þorlákshöfn hafin

Vinsælast

Kjartan Örn Ólafsson, Lýsi hf og Gunnsteinn R. Ómarsson bæjarstjóri taka 1. skólflustunguna.

Síðastliðinn laugardag, þann 13. maí, var fyrsta skóflustungan tekin fyrir þurrkverksmiðju Lýsis hf. í Þorlákshöfn. Kjartan Örn Ólafsson framkvæmdastjóri Lýsis hf í Þorlákshöfn og Gunnsteinn R. Ómarsson bæjarstjóri sveitarfélagsins Öflus tóku sameiginlega fyrstu skóflustunguna með vélskóflu.

Um er að ræða 2.500 fermetra steypta byggingu með rúmmál 15.000 rúmmetra. Ný verksmiðja leysir af hólmi eldri verksmiðjur í Þorlákshöfn, sem eru á tveim stöðum. Öll starfssemi þurrkunarverksmiðju verður nú undir einu þaki. Verksmiðja verður reist á nýju iðnaðarsvæði, um 3 km vestan Þorlákshafnar með aðkomu frá Suðurstrandarvegi. Unnið er jafnframt að framkvæmdum við veitukerfi að svæði og fráveitu út í sjó frá iðnaðarsvæði. Áætlanir miða við að verksmiðja verði tilbúin fyrir haustið 2018.

Reiknað er með að þurrkverksmiðja vinni úr allt að 10.000 tonnum af hráefni á ári. Hráefni er aðallega fiskhausar, fiskibein eða fiskafskurður, sem er loftþurrkaður með heitu vatni.   Orka sem verksmiðja þarf, hvort sem horft er til rafmagns eða heits vatns er á við 100 einbýlishús. Stöðugildi í verksmiðjunni eru bilinu 30-40.

Þurrkuðum afurðum er pakkað í verksmiðju og komið fyrir í gámum. Afurðir hafa nær eingöngu verið seldar á erlendan markað síðastliðin ár. Verksmiðja sem þessi breytir hliðarafurðum í sjávarútvegi í verðmætan gjaldeyri og notar til þess umhverfisvæna orku, heitt vatn og rafmagn. Við byggingu verksmiðju er horft til umhverfisvænna innlendra byggingarefna sem hafa sem minnst kolefnisspor.

Nýjar fréttir