8.9 C
Selfoss

Nemendur og kennarar léku og túlkuðu atburði úr Njálu

Vinsælast

Nemendur og kennarar úr Njáluáfanga í FSu fóru á Njáluslóðir á dögunum ásamt sögukennaranum Lárusi Bragasyni. Áð var á helstu sögustöðum þar sem nemendur léku og túlkuðu atburði bókarinnar með glensi og innlifun. Á Þingskálum fékk Ámundi blindi sjón og hjó öxi í höfuð síns föðurbana, við Gunnarsstein vógu Gunnar og Kolskeggur ekki færri en fjórtán menn og við Minna-Hof og Stóra-Hof lifnuðu þrjótarnir Skammkell og Mörður Valgarðsson við svo fátt eitt sé nefnt. Í Skálanum í Sögusetrinu á Hvolsvelli hreyttu síðan m.a. Hallgerður og Bergþóra fúkyrðum hvor í aðra svo Gunnar neyddist til að fara með spúsu sína beinustu leið heim. Þá var einnig keyrt inn Fljótshlíðina að Hlíðarenda, horft yfir landið og andi bókarinnar meðtekinn. Góður rómur var gerður að ferðinni og virtust flestir skemmta sér ljómandi vel.

Nýjar fréttir