0.4 C
Selfoss

Hvað er í gangi í Flóanum?

Vinsælast

Á íbúafundi á vegum sveitarstjórnar Flóahrepps sem haldinn var í Þingborg mánudagskvöldið 8. maí síðastliðinn fluttum við undirritaðar eftirfarandi erindi:

Varðandi uppsögn Önnu Grétu Ólafsdóttur skólastjóra í Flóaskóla
Eins og fundinum er kunnugt var Önnu Gretu Ólafsdóttur, skólastjóra í Flóaskóla, sagt upp störfum fyrirvaralaust fimmtudaginn 27. apríl síðastliðinn.

Ástæður uppsagnarinnar eru sagðar:

  • Hnignandi skólastarf
  • Óánægja foreldra með skólastarf og samskipti við foreldra
  • Trúnaðarbrestir við nemendur
  • Samskipaörðugleikar við sveitarstjóra og sveitarstjórn
  • Vankunnátta og óvandvirkni í starfi sem og skipulagsleysi og erfiðleikar við stjórnun skólans

Þegar skólastjóri er borinn svo þungum sökum hefði maður haldið að ástandið hefði varað í langan tíma.

Maður skyldi ætla að búið væri að fara af stað með alls konar vinnu til að aðstoða skólastjóra og starfsfólk við að ná tökum á því sem gengið hefur á, þar sem fræðslunefnd og sveitarstjórn eru bakhjarlar skólans. Ekki hefur verið farið í neina slíka vinnu og við undirritaðir starfsmenn skólans komum af fjöllum þegar talað er um hnignandi skólastarf.

Sveitarstjórn segist hafa gögn undir höndum sem styðji óhæfi skólastjóra. Þessi gögn eru meðal annars skólapúlsinn, sem er sjálfsmatstæki skóla á Íslandi og skiptist hann í þrjá hluta: Nemendapúls, foreldrapúls og starfsmannapúls.

Nemendapúlsinn kom vel út. Við erum sambærileg við aðra skóla á landinu nema hvað varðar þætti eins og hreyfingu og mataræði utan skóla og magn heimanáms.

Sumir þættir foreldrapúlsins komu illa út. Okkur sem starfsmönnum skólans fannst að okkur vegið sem starfsmenn og vorum furðu lostnar með niðurstöðurnar og fannst að ekki væri verið að lýsa skólanum sem við störfum í. Ekki var eingöngu verið að setja út á stjórnun skólans. Þó skal tekið fram að margt jákvætt kom líka fram frá foreldrum og það þökkum við undirritaðar fyrir.

Starfsmannapúlsinn kom vel út. Nefna má þætti sem starfsmenn komu á pari við landið allt eða yfir. Það eru þættir eins og starfsmannaviðtöl, starfsánægja í skólanum, starfsandi innan skólans, stjórnun skólans, starfsumhverfi, ánægja með kennarastarfið og fleira og fleira. Við viljum benda á að spurningin um hæfilegt mat og endurgjöf frá stjórnendum að mati kennara mælist næst hæst á öllu landinu.

Niðurstöður starfsmannapúlsins höfðu ekki verið birtar sveitarstjórn þegar skólastjóra var sagt upp og finnst okkur það með ólíkindum.

Við viljum varpa fram eftirfarandi spurningum:

  • Af hverju hafði sveitarstjórn ekki áhuga á að ræða við starfsfólk skólans og spyrja það út í starfsandann og stjórnun skólans?
  • Af hverju var ekki fenginn óháður aðili til að skoða skólastarfið?
  • Af hverju gekk sveitarstjórn fram hjá fræðslunefnd við þá ákvörðun að segja skólastjóra upp?
  • Af hverju var skólaráði ekki kynnt sú mikla breyting á skólastarfinu að segja skólastjóra upp?
  • Af hverju vissi ekki aðstoðarskólastjórinn um þessa erfiðleika í stjórnun skólans?
  • Ætlast var til í uppsagnarbréfinu að skólastjóri sem var verið að segja upp, vegna þess sem að ofan er sagt, ynni út skólaárið og skipulegði næsta skólaár fyrir skólastjórann sem taka á svo við.

Eru þetta ekki undarleg vinnubrögð?

Ætlast var til að aðstoðarskólastjóri ynni störf skólastjóra ef skólastjóri mætti ekki til vinnu. Sveitarstjórn vissi ekki að ráðningarsamningur aðstoðarskólastjóra rennur út 19. maí nk.

Hvorki var rætt við aðstoðarskólastjóra fyrir eða eftir að skólastjóra var sagt upp.

Við undirritaðar skiljum ekki þá tímasetningu að segja skólastjóra upp þegar einungis mánuður var eftir af skólanum og setja skólastarfið í uppnám.

Það er ótrúlegt að sveitarstjórn bjóði starfsfólki skólans og nemendum upp á að vinna við þessar aðstæður, þar sem sögusagnir frá mörgum heimilum sveitarinnar berast beint inn í skólann. Þetta mátti sveitarstjórnin sjá fyrir og þessi ákvörðun hefur valdið mörgum mikilli vanlíðan bæði starfsmönnum og nemendum.

Þær upplýsingar sem við fengum frá sveitarstjórn voru að tímasetning uppsagnar skólastjóra væri til þess að ná í nýjan skólastjóra þegar sem flestir skólastjórar eru að færa sig á milli skóla, í byrjun maí.

Okkur undirrituðum finnst þetta dapurleg endalok á starfi okkar hér í Flóaskóla, skólanum sem okkur þykir afskaplega vænt um. Skólastarfið blómstrar og okkur hefur liðið einstaklega vel í vinnunni okkar í vetur og sjáum ekki annað á nemendum okkar en að þeim líði vel líka.

Sem íbúar í Flóahreppi höfum við einnig margt við þessa uppsögn að athuga og viljum því varpa fram eftirfarandi spurningum:

  • Var farið að lögum og samningsbundinn réttur skólastjóra virtur?
  • Töldu sveitarstjórnarmenn að uppsögn skólastjóra á þessum tímapunkti, með þessum rökum, væri nemendum fyrir bestu?
  • Var skólastjóra veitt skrifleg áminning í starfi og gefinn kostur á að bæta sig? Og ef ekki? Hvers vegna?
  • Gera sveitarstjórnarmenn sér grein fyrir því hversu alvarlegt brot það er að segja opinberum starfsmanni upp án þess að fara að lögum?
  • Hvað kostar þetta mál sveitarfélagið og þegna þess þegar upp er staðið?

Fordæmi eru fyrir því að það kosti háar fjárhæðir ef opinberum starfsmönnum er sagt upp ólöglega.

Því miður finnst okkur undirrituðum þessi uppsögn, frekar stjórnast af tilfinningum og andúð í garð skólastjóra, heldur en góðri stjórnsýslu.

Þar sem stór hluti kennara og stjórnenda hættir störfum nú í vor, er það einlæg von okkar að nýtt starfsfólk Flóaskóla og einnig þeir sem ætla að halda áfram störfum fyrir skólann, fái frið til að vinna vinnuna sína án tilhæfulausra árása og afskipta. Starfsfólk skólans hefur ávallt velferð nemenda að leiðarljósi.

Alda Stefánsdóttir Syðri-Gróf
Harpa Hreggviðsdóttir Langholti

Við erum báðar íbúar í Flóahreppi, kennarar í Flóaskóla og höfum báðar sagt upp störfum okkar við skólann.

Spurningarnar sem bornar voru upp í þessu erindi var ekki svarað að hálfu sveitarstjórnarmanna á fundinum. Við og sveitungar okkar, sem sóttum fundinn, eru því jafnnær um ástæðu þessarar uppsagnar og því vinnulagi sem beitt var í framkvæmd hennar.

Nýjar fréttir