1.7 C
Selfoss

Gleymdist að tilkynna fyrirtækjaeigendum um sex vikna lokun á Eyravegi

Vinsælast

Sveitafélagið Árborg ákvað að fara í framkvæmdir á gatnamótum Eyravegs og Kirkjuvegar á Selfossi og loka þar með annarri umferðamestu götu bæjarins án samráðs eða samstarfs við rekstraraðila á svæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fulltrúum rekstraraðilum við Eyraveg. Þar segir enn fremur:

„Áætluð lokun Eyravegar er sex vikur sem er alvarlegt mál og hefur ófyrirséð áhrif á a.m.k 32 fyrirtæki. Tilkynning um lokun birtist fyrst í auglýsingu rúmum tveimur vikum fyrir umrædda lokun, sá skammi fyrirvari gerir rekstraraðilum ekki kleift að grípa til mótvægisaðgerða eða skipuleggja rekstur að breyttum aðstæðum. Maí er einn stærsti viðskiptamánuður flestra rekstraraðila á þessu svæði og hefur undirbúningur fyrir væntanleg viðskipti staðið lengi yfir. Því er ljóst að verulegir viðskiptahagsmunir eru í húfi. Rekstraraðilar eru uggandi yfir því að verulegt tjón kunni að hljótast af þessum lokunum.

Uppsett hjáleið er löng, flókin og erfið fyrir ókunnugt fólk sem ekki þekkir til hér í bæ. Selfoss er þjónustubær og er mjög stór hluti viðskiptamanna á þessum tíma fólk utan svæðisins sem þekkir illa eða ekki tilteknar leiðir.

Allri umferð hvort sem það eru smábílar eða trukkar, er beint um íbúðagötu eins og Tryggvagötu, sem ber illa þunga af svona mikilli umferð. Það er mat rekstraraðila við Eyraveg að ef gott samstarf og samráð hefði átt sér stað í tíma þá hefði verið hægt að standa margfalt betur að málum. Huga hefði mátt að fleiri og betri hjáleiðum, hliðrun framkvæmda og eða öðrum framkvæmdatíma, betri merkingum og o.fl. Við svona stórframkvæmdir þá þarf atvinnulífið og bæjaryfirvöld að vinna saman svo vel megi fara fyrir báða aðila. Er það lágmarks krafa að upplýsa rekstraraðila um stöðuna svo þeir geti lágmarkað tjón sitt. Vinnubrögð af þessum toga eru ekki boðleg rekstraraðilum né íbúum.

Fulltrúar rekstraraðila við Eyraveg vilja biðja viðskiptavini sína velvirðingar á þeim óþægindum sem framkvæmdin hefur í för með sér um leið og þeir bjóða viðskiptavini velkomna.“

Random Image

Nýjar fréttir